*

Menning & listir 13. mars 2020

Endalaust gagnamagn í samkomubanni

Þó fjölmörgum sýningum, tónleikum, danskvöldum og námskeiðum hafi verið aflýst verður Bíó Paradís opin um helgina.

Síminn hefur ákveðið að veita viðskiptavinum sínum með heimatengingar og farsíma endalaust gagnamagn á meðan samkomubanni stendur, en það mun taka gildi á mánudag.

Eins og þjóðin hefur vart farið varhluta af hefur í dag ringt yfir Facebook og aðra miðla tilkynningum um að ýmis konar samkomur, listasýningar og félagslegar athafnir næstu vikna sé aflýst. Þar á meðal tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar, danskvöldum og námskeiðum hjá bæði Salsa Ísland og Sveiflustöðinni, og fjölda annarra viðburða þar sem fólk hefur komið saman.

Jafnframt hafa ýmsar skrifstofur lokað móttökum hjá sér eða gripið til ýmis konar aðgerða og mun mikill fjöldi landsmanna nú þurfa að vera heima hjá sér og stunda fjarvinnu, fjarnám eða vera í sóttkví sem mun auka notkun heimila sem og auka álag á fjarskiptakerfin almennt.

Til að viðskiptavinir Símans þurfi ekki að hafa áhyggjur af notkun og kostnaði fjarskipta á þessum tímum hefur Síminn því ákveðið að notkun umfram innifalið gagnmagn verði ekki gjaldfærð.

„Það er fordæmalaust ástand í þjóðfélaginu og í heiminum öllum. Fjarskipti eru nauðsynleg í þessu ástandi, þau stytta vegalengdir og hjálpa okkkur að halda uppi samskiptum okkar á milli.“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans. „Við hjá Símanum viljum að viðskiptavinir okkar hugsi frekar um eigin hag og heilsu, ættingja sína og vini frekar en innifalið gagnamagn og símreikninga.“

Þó er ekki þannig að öllum viðburðum hafi verið aflýst, þannig má nefna að Bíó Paradís verður opin alla helgina, en þar er Stockfish kvikmyndahátíðin í fullum gangi, auk almennra sýninga á verkum á borð við Pain and Glory, Bombshell, Little Women og Óskarsverðlaunamyndarinnar Parasite.

Bíóið segist þó ætla að virða samkomubannið og gera ráðstafanir frá og með mánudeginum. Aðrir atburðir verða á sínum stað í kvöld, þar á meðal Karaókí á Loft hosteli en hljóðneminn sótthreinsaður eftir hvern gest.