*

Bílar 5. júní 2012

Endurheimtu 500 milljóna Mercedes Benz eftir 67 ár

500 K er einn dýrasti fornbíll heims. Deilt var um eignarétt á slíkum bíl fyrir dómstól í Hamborg í Þýskalandi.

Hollenski auðkýfingurinn og bílasafnarinn Frans van Haren keypti Mercedes-Benz 500 K með blæju árgerð 1935 á uppboði í Monteray í Kaliforníu í Bandaríkjunum í ágúst árið 2011. Kaupverðið var 3,8 milljónir dala, rétt tæpar 500 milljónir króna. Uppboðshúsið sagði í uppboðslýsingu að eigendasaga bílsins fyrir 1970 væri óþekkt. En annað átti eftir að koma á daginn.

Mercedes-Benz 500 K er einn flottasti og dýrasti sportbíll síns tíma. Bíllinn er afar fágætur. Alls voru framleiddir 342 bílar af 500 K á árunum 1934-1936. Aðeins voru 29 blæjubílar.

Þegar van Haren ætlaði að sýna bíllinn í mars á Techno Classica bílasýningunni í Essen lagði þýska lögreglan hald á bíllinn að kröfu erfingja Hans nokkurs Friedrich Prym.

Hans Friedrich Prym var þýskur iðnjöfur og keypti bílinn nýjan árið 1935. Félag Prym, sem framleiddi hnappa, tölur og rennilása, er í dag eignarhaldsfélag og eitt elsta fjölskyldufyrirtæki Þýskalands.

Tæplega 70 ára gamalt þýfi

Því var haldið fram fyrir dómstól í Hamburg, að Prym hefði selt bandarískum hermanni bílinn í lok seinni heimstyrjialdarinnar, árið 1945. Prym-fjölskyldan hélt því hins vegar fram að bílnum hefði verið stolið. Prym var dæmdur í fangelsi af hermönnum bandamanna (e. allies) í stríðslok og settu bandarískir hermenn upp búðir sínar á landareign Prym í Stolberg í Þýskalandi. Stolberg var meðal fyrstu bæja sem bandamenn náðu á vald sitt, en hann liggur við landamæri Belgíu.

Bíllinn hvarf eftir þetta, en umsjónarmaður hans, Franz Wagemann, var fjarrverandi í nokkra daga þegar bíllinn gufaði upp. Komst dómurinn að því að bílnum hafi verið stolið, líklega af bandarískum hermönnum og féllst því á kröfur Prym-fjölskyldunnar. Dómurinn féll í lok síðustu viku.

Van Haren tapaði því bæði bílnum og 494 milljónunum króna, á gengi dagsins í dag.

 

 

 

Stikkorð: Mercedes Benz