*

Veiði 21. nóvember 2012

Engar breytingar gerðar á rjúpnaveiðitímabilinu

Fjölmargir höfðu óskað eftir því að rjúpnatímabilið yrði lengt þar sem veður hefur verið afleitt til veiða síðustu vikur.

Ekki verða gerðar breytingar á reglum um rjúpnaveiðar á þessu ári.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar en fjölmargar fyrirspurning og óskir um breytt tímabil hafa borist til umhverfisráðuneytisins um breytingar á tímabilinu vegna veðurs. Sem kunnugt er voru aðeins leyfðir níu dagar í rjúpnaveiði í ár en flesta dagana hefur veður verið afleitt og ekki til þess fallið að stunda veiðar.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði m.a. óskað eftir því að umhverfisnefnd þingsins taki til umfjöllunar lengingu rjúpnaveiðitímabilsins vegna óveðurs.

Næsta helgi verður því síðasta helgin sem heimilt verður að veiða rjúpu, þ.e. næsta laugardag og sunnudag. 

Stikkorð: Rjúpnaveiði