*

Heilsa 15. febrúar 2013

Fegrunaraðgerðum hefur ekkert fækkað eftir hrun

Ottó Guðjónsson lýtalæknir segir það koma á óvart hve mikil og stöðug eftirspurnin sé eftir fegrunaraðgerðum eftir hrun.

Lára Björg Björnsdóttir

„Þetta er rosalega svipað, það er það sem kemur manni mest á óvart, konur virðast vera tilbúnar að eyða peningum í fegrunaraðgerðir þó að hér hafi orðið hrun,“ segir Ottó Guðjónsson lýtalæknir spurður hvort hann hafi tekið eftir minnkandi eftirspurn eftir fegrunaraðgerðum eftir hrun.

„Mér fannst þetta minnka örlítið rétt eftir hrun en þetta er komið í sama farið og var hér áður fyrr, það er nóg að gera.“ Spurður hvort að fegrunaraðgerðir séu algengar á meðal íslenskra kvenna segir Ottó svo vera: „Þú sérð að við erum nokkrir sem erum nánast bara í þessum fegrunaraðgerðum og gerum lítið annað.“

Ottó segir eina fegrunaraðgerð vinsælli en aðrar: „Hjá mér eru það brjóstastækkanirnar. Þeim hefur ekkert fækkað eftir hrun og ekki heldur eftir PIP púða málið. Næst á eftir hjá mér í vinsældum koma augnlokaaðgerðir og svuntuaðgerðir.“ 

Ottó segir að stærsti hópurinn sem komi í brjóstastækkanirnar séu konur á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára: „Næsti hópurinn þar á eftir eru mömmurnar sem eru búnar að eiga börnin. Ungu konurnar lifa fyrir líðandi stund og láta þetta eftir sér að fara í þessa aðgerð. Og nýbökuðu mömmurnar hugsa að þetta sé eitthvað sem þær eiga inni.“