*

Menning & listir 5. júlí 2012

Engin Hendrix tónlist í Hendrix kvikmyndinni

Framleiðendur nýrrar kvikmyndar um gítarsnillinginn Jimi Hendrix vildu ekki semja um réttinn til að nota tónlist hans í myndinni.

Í væntanlegri kvikmynd um gítarsnillinginn Jimi Hendrix verður engin tónlist eftir Hendrix sjálfan. Þess í stað mun tónlistarmaðurinn Andre Benjamin, sem einnig fer með hlutverk Hendrix í myndinni, spila lög eftir Bítlana, Muddy Waters og aðra. Ástæða þessarar undarlegu tónlistarlegu ákvörðunar er sú að framleiðendur myndarinnar vildu ekki eyða tíma og fé í að semja um réttinn til að nota lög Hendrix í myndinni.

Fjölskylda Hendrix fékk réttinn á lögum gítarstjörnunnar á tíunda áratug síðustu aldar eftir harkalega deilu við þáverandi eigendur laganna. Fjölskyldumeðlimirnir hafa hins vegar átt í harðvítugum átökum sín á milli um réttindi og tekjur, enda eru fjárhagslegir hagsmunir þeirra mjög miklir. Líklegt er að aðstandendur kvikmyndarinnar hafi ákveðið að sleppa tónlistinni í stað þess að dýfa tánum í þessa ormagryfju.

Til að réttlæta tónlistarvalið mun kvikmyndin fjalla um yngri ár Hendrix, þ.e. áður en hann varð frægur.

Stikkorð: Jimi Hendrix