*

Hitt og þetta 22. janúar 2013

Enginn hundur er heimskur, bara misskilinn

Hvaða tegund ætli sé barngóð? Hvaða tegund er heimskust? Hvaða tegund hentar þér best?

Lára Björg Björnsdóttir

Fyrsta spurningin sem kemur gjarnan upp þegar foreldrar ungra barna ákveða að fá hund á heimilið er hvort hann sé barngóður. 

„Það eru fjölmargar tegundir sem henta fyrir börn eins og Labrador og Cavalier en í raun geta allar tegundir hunda verið barngóðar,“ segir Heiðrún Villa Ingudóttir hundaatferlisfræðingur

Hún segir að þegar velja skal hund þurfi að skoða tegundareiginleika og eðli. Ekki sé gáfulegt að fá sér orkumesta hvolpinn í hópnum ef manni sjálfum er illa við útiveru og almenna hreyfingu:

„Hundaeigandi þarf að vera viss um að geta uppfyllt þarfir hundsins og þá verður hann yndislegur félagi. Ekki hugsa um útlitið heldur þarf að velja tegund eftir karakter. Sé þörfum hundsins ekki mætt þá koma upp vandamál. Ef hundur sem þarf mikinn félagsskap er til dæmis skilinn eftir mikið einn getur æsingur, stress og aðskilnaðarkvíði komið upp.“ 

Heiðrún segir mjög mikilvægt að barnið á heimilinu læri að virða hundinn og fari ekki með hann eins og leikfang: „Barnið þarf kennslu í að umgangast hundinn. Það er alls ekki ráðlagt að barn fái að hnoðast um með heimilishundinn og fara með hann eins og leikfang því þá fer barnið kannski í næsta hús og gerir það sama við annan hund og er bitið.“

Eru sumir hundar heimskari en aðrir?

„Sumir hundar eru kannski frekar orkuminni og gera hlutina á sínum tíma. Þeir geta oft virkað heimskir en eru í raun bara misskildir. Ég á sjálf bolabít og þeir eru oft taldir vitlausir en það er ekki satt. Bolabítar eru meira bremsulausir og með sterkt eðli. Þetta er bara spurning um að skilja hundinn sinn,“ segir Heiðrún. 

Stikkorð: Dýr  • Hundar