*

Matur og vín 30. desember 2017

Enn glóir vín á skál

Gott er að nota ferðalög til að heimsækja sérverslanir með vín og vínbari til þess að bæta við þekkinguna.

Andrés Magnússon

Neysla á léttum vínum hefur aukist töluvert á liðnum árum og margvíslegar vísbendingar um að fólk sé að verða vandlátara á vín, sala á árgangsvínum og dýrari vínum hefur aukist, vínnámskeið og vínsmakkanir hafa aldrei notið meiri vinsælda og vínkerar sjálfsagt aldrei fleiri. Vafalaust hefur aukinn straumur erlendra ferðamanna þar áhrif á; þeir drekka sinn skerf af aukningunni, en eins leikur enginn vafi á að vínúrval á Íslandi hefur aukist og batnað í réttu hlutfalli við ferðamannastrauminn og þess njóta Íslendingar auðvitað líka.

Líkt og með tónlist geta flestir áttað sig á því hvaða vín þeim þykir gott og hvað ekki. En vínið er margslungið, svona eins og klassísk tónlist, og til þess að njóta þess til fullnustu, þarf að leggja sig eftir því, smakka og lesa, hugsa um það og læra sitt af hverju. Það á við jafnvel þó menn vilji aðeins getað lesið sig skammlaust í gegnum vínlista, talað um vín af einhverri þekkingu, valið vín til gjafa eða parað vín með mat héðan og þaðan úr heimsþorpinu. Og jú, kunna skil á vínsnobbi líka.

Það eru til ýmsar ágætar bækur um vín og vínmenningu, auk pistla og greina í fjölmiðlum, en þó er rétt að vara fólk við því að taka þær skoðanir, sem þar koma fram, of hátíðlega. Um vín – líkt og tónlist – skrifa menn jafnan af nokkru hrifnæmi og yfirlýsingagleði, en stór hluti af því veltur á smekk, Hver maður hefur sinn smekk og um hann þýðir ekki að deila.

Það er óhætt að mæla með vínskólum og námskeiðum til þess að koma fólki af stað í þeim efnum, en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir að smakka og smakka nógu mikið. Það er líka óhætt að ráðfæra sig við vínþjóna á veitingastöðum og eins eru ýmsir starfsmenn Vínbúðanna ansi glúrnir, þó það megi til ólukkunnar ekki fá smakk þar!

Sérstaklega er þó ástæða til þess að minna fólk á að nota ferðalög erlendis til þess að heimsækja sérverslanir með vín og vínbari til þess að bæta við þekkinguna, þar er úrvalið allt annað og oft skemmtilega staðbundið.

Loks er ástæða til þess að benda á öpp eins og Vivino til þess að halda utan um allt smakkið og fá ábendingar í framhaldinu.

En það er þetta með vínsnobbið. Það er ekki hægt að líta hjá því að það er hluti vínmenningar, stundum jafnvel skemmtilegur hluti hennar. Margt af því er ekki úr lausu lofti gripið, en annað er eins og hverjar aðrar kerlingabækur. Menn læra á það eins og annað, en snobb og yfirlæti er líka til þess fallið að draga úr áhuga fólks og dirfsku til að spyrja.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is