*

Menning & listir 2. september 2013

Enn hægt að láta drauminn verða að veruleika

Söfnun fyrir sirkustjaldi stendur enn yfir en henni mun ljúka á miðnætti.

Á miðnætti rennur út frestur til að láta drauminn um sirkustjald verða að veruleika. Sirkus Íslands hefur að undanförnu staðið að söfnuninni á hópfjármögnunarvefnum Karolina Fund.  

Á þriðja hundrað manns hafa nú þegar safnað 64% þeirrar upphæðar sem þarf. Aðstandendur söfnunarinnar segja að nái söfnunin ekki í 100% áður en dagurinn er úti rennur allur peningurinn aftur til stuðningsfólks. Takist hinsvegar að safna í tiltekna upphæð í tæka tíð munu þeir sem hana studdu fá að launum miða á sýningar Sirkússins næsta sumar.  

„Á undanförnum dögum hefur gangur söfnunarinnar farið stigmagnandi og nú eru eftir æsispennandi lokametrar, þar sem hver mínúta skiptir máli. Aðstandendur Karolina Fund hvetja alla landsmenn sem vettlingi geta valdið til þess að taka þátt í sirkússgleðinni og leggja sitt af mörkum til þessa þjóðþrifa verkefnis,“ segja aðstandendur söfnunarinnar í tilkynningu.  

Hægt er að fylgjast með gangi mála, og styrkja söfnunina hér.

Stikkorð: Sirkus Íslands