*

Bílar 27. ágúst 2012

Enn íburðarmeiri Range Rover

Biðin styttist eftir nýjasta lúxusjeppanum undir merkjum Range Rover. Bíllinn verður kynntur á bílasýningunni i París í september.

Nú styttist í að fjórða kynslóðin af lúxusjeppanum Range Rover líti dagsins ljós. Eins og við er að búast af þessum ókrýnda konungi lúxusjeppanna mun þessi nýi bíll vera hlaðinn flottum  nýjungum og búnaði til að gera aksturinn ennþá skemmtilegri og þægilegri. Nýi jeppinn fær nýja loftpúðafjöðrun sem bæta á aksturseiginleika jeppans sem hafa nú samt sem áður þótt mjög góðir hingað til. Terrain Resopnse drifbúnaðurinn hefur verið uppfærður og endurbættur sem og allur öryggisbúnaður en ekkert mun vanta í þennan nýja Range Rover.

Hönnunin á þessum nýja Range Rover er unnin af Gerry McGovern og sækir hann ýmiss smáatriði í litla bróðurinn Evoque. Framendinn er straumlínulagaðri, ljós og annað hannað þannig að loftmótstaðan sé sem mynnst. Það eru þó engar róttækar útlitsbreytingar en flestu hefur verið breytt í innanrýminu sem verður enn íburðarmeira og fótarými fyrir aftursætisfarþega er aukið um 12 cm. Þá hefur lúxusjeppinn verið léttur um alls 320 kíló með að nota mikið af áli sem hefur leyst af stál í undirvagni og yfirbyggingu bílsins. Með þessu nær jeppinn eyðslunni talsvert niður. Jeppinn verður smíðaður í nýjum verksmiðjum Land Rover í nágrenni Birmingham. 

Nýi bíllinn verður með V8 vél en ekki er ljóst á þessari stundu hvort aukið verður við afl véla sem nú má finna í Range Rover. Þær skila nú 375 og 510 hestöflum sem er feikilegur kraftur. Ljóst er þó að nýi jeppinn mun fá nýja gerð skiptingar, 8 gíra sjálfskipting leysir af hólmi eldri 6 gíra skiptingu.

Nýja gerð lúxusjeppans verður frumsýnd á Alþjóðlegu bílasýningunni í París í september.  

 

Stikkorð: Range Rover