*

Hitt og þetta 30. nóvember 2004

Enski boltinn um FARICE

Síminn ákvað fyrir skömmu að senda út enska boltann yfir FARICE-1 sæstrenginn. Síminn nálgast dagskrána í London, þaðan sem hún er flutt um ljósleiðarasamband til Edinborgar, þar sem hún er tengd inn á FARICE-1 til Reykjavíkur. Áður fóru útsendingar á boltanum í gegnum gervitungl. "Útsendingin á FARICE-1 tryggir viðskiptavinum stöðugra samband þar sem útsendingin er óháð sveiflum í veðurfari. Útsendingar um FARICE-1 eru þar að auki hagkvæmari kostur. Leikjunum er tryggð ákveðin bandbreidd meðan á útsendingu þeirra stendur yfir," segir Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

"FARICE-1 var tekinn í notkun í upphafi þessa árs og markar þau tímamót að í fyrsta skipti er landið tvítengt um aðskilinn ljósleiðara austur og vestur um haf. Þetta þýðir mun meira öryggi en áður þegar síma- og tölvunotendur urðu að treysta á aðeins einn ljósleiðara, CANTAT-3, og varasamband um gervitungl í öllum samskiptum sínum við útlönd. Fjarskiptafyrirtæki geta nú nýtt samhliða báða strengina þannig að þótt sambandið rofni á öðrum strengnum veldur það nánast engri röskun á þjónustu," segir Eva.