*

Bílar 15. september 2017

EQA frumsýndur í Frankfurt

Mercedes-Benz kynnti á bílasýningunni í Frankfurt í gær nýjan rafbíl sem er með 400 km drægni og 200 kW afl.

Mercedes-Benz kynnti nýjan og spennandi bíl á bílasýningunni í Frankfurt í gær. Um er að ræða hugmyndabíl sem ber nafnið EQA og er hreinn rafbíll. Bíllinn fékk mikla athygli á sviðinu í Frankfurt í gær eins og búist var við. Bíllinn er framúrstefnulegur í hönnun en hann er 5 dyra stallbakur. EQA er með tvo rafmótora sem framleiða samtals 200 kW af hreinu afli til hjólanna. Drægni bílsins er allt að 400 km við bestu aðstæður.

Mercedes-Benz kynnti vörumerkið EQ á bílasýningunni í París í fyrrahaust en það nær yfir alla rafbíla þýska lúxusbílaframleiðandans. Bíllinn mun koma á markað árið 2020 og verður þá annar bíllinn í röðinni af 10 hreinum rafbílum sem Mercedes-Benz mun kynna á næstu 5 árum.

EQA fylgir í fótspor fjórhjóladrifna sportjeppans Generation EQ sem kynntur var í París í fyrra og kemur á markað árið 2019. Plug-in Hybrid bílar Mercedes-Benz verða einnig framleiddir undir merkjum EQ en þeir eru búnir tengiltvinnvél, þ.e. bæði rafmótor og brunavél.

Mercedes-Benz hefur ákveðið að fjárfesta af miklum þunga í rafbílum og rafhlöðutækni. Þannig ætlar fyrirtækið að skapa innviði fyrir mikla þekkingu og tækni fyrir nýja rafbíla. Í byggingu er 55 milljarða króna risarafhlöðuverksmiðja Mercedes-Benz í Þýskalandi.

Stikkorð: Frankfurt  • rafbíll  • Mercedes-Benz EQ 2