*

Bílar 3. desember 2020

EQV og eVito Tourer í sýndarsal Öskju

Tveir nýjustu rafbílar Mercedes-Benz verða frumsýndir í dag í nýjum sýndarsal sem Askja hefur hannað í samstarfi við Daimler.

Róbert Róbertsson

Bílaumboðið Askja mun frumsýna tvo nýjustu rafbíla Mercedes-Benz, EQV og eVito Tourer í dag 3. desember. Bílarnir verða frumsýndir í nýjum sýndarsal Mercedes-Benz á vefsíðunni syndarsalur.is.

EQV og eVito eru 100% rafmagnaðir fjölnotabílar. Um er að ræða nýja valmöguleika í rafmögnuðum samgöngum en bílanir henta vel fyrir akstur með minni hópa eða allt að níu manns. Báðir þessir bílar er góður kostur sem atvinnubíll, sem fágaður fjölskyldubíll eða vel útbúinn fjölnotabíll fyrir ólík verkefni í tengslum við vinnuna eða til einkanota.

Bílarnir koma í tveimur lengdum með sæti fyrir allt að níu manns og góðu plássi fyrir farangur. Bílarnir státa af miklu innanrými en rafgeymastæðan er undir gólfi bílsins og gengur því ekki á innanrýmið. Í lengstu útfærslu er farangursrýmið allt að 1.410 l. Rafdrægni EQV er 356 km og eVito Tourer er 361 km á fullri hleðslu.

Það tekur einungis um 45 mínútur að hlaða frá 10% upp í 80% hleðslu í hraðhleðslustöð. EQV og eVito eru afbragðsgóðir í akstri og að sjálfsögðu með öllum þeim þæginda- og öryggisbúnaði sem einkennir Mercedes-Benz. Fjöldi tengiltvinnbíla og rafdrifinna fólksbíla frá Mercedes-Benz er þegar á boðstólnum og nú bætast í hópinn þessir tveir hreinu rafbílar sem eru mjög góð viðbót við úrvalið.

„Við hjá Öskju höfum hannað þennan nýja sýndarsal í samstarfi við Daimler, eiganda Mercedes-Benz,“ segir Arna Rut Hjartardóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála Öskju.

„Sýndarsalinn er strax hægt að skoða að hluta en frumsýningin á EQV og eVito Tourer opnar þann 3. desember kl. 10:30. Við hlökkum mikið til að sýna þessa tvo nýju og spennandi bíla og leyfa viðskiptavinum okkar að njóta upplifunarinnar á þessum nýja vettvangi.“

Stikkorð: Askja  • Mercedes-Benz  • rafbílar