*

Sport & peningar 1. september 2015

Er fótbolti að verða þjóðaríþrótt Íslendinga?

Birtingardeild H:N Markaðssamskipta spáir því að allt að 50% Íslendinga muni horfa á landsleik Íslands og Hollands.

Staðan í íslenskri karlaknattspyrnu í dag er sú að nú er hver einasti landsleikur sem liðið spilar sá mikilvægasti frá upphafi. Ástæðan fyrir þessu er sú að landsliðið hefur aldrei verið jafn nálægt því að komast í lokakeppni stórmóts. Sem stendur er landsliðið í efsta sæti síns riðils, tveimur stigum á undan Tékkum, sem eru í 2. sæti, og fimm stigum á undan Hollandi, sem er í  3. sæti.

Birtingardeild H:N Markaðssamskipta spáir því að meðaláhorf á landsleik Íslands og Hollands á fimmtudaginn verði 45 til 50%. 

„Leikir íslenska karlalandsliðsins í handbolta hafa yfirleitt notið meiri vinsælda í sjónvarpi en leikir fótboltalandsliðsins," segir í tilkynningu frá H:N. „Sem dæmi má nefna var meðaláhorf á leik Íslands og Frakklands í úrslitaleiknum um gullverðlaunin á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 um 51% og leikur Íslands og Póllands á Evrópumótinu 2010 var með 55% meðaláhorf.

Með batnandi gengi fótboltalandsliðsins eru hins vegar æ fleiri farnir að fylgjast með leikjum þess í sjónvarpi. Ísland mætti Tékkum á Laugardalsvelli í júní síðastliðnum og var meðaláhorf á leikinn 31% – sem þykir nokkuð gott áhorf miðað við árstíma. Þegar Ísland mætti Hollandi á Laugardalsvelli í október síðastliðnum var meðaláhorfið 37% . Í umspilsleikjunum við Króatíu árið 2013, þegar Íslandi mistókst að komast í lokakeppni HM, var meðaláhorfið hins vegar 47% í heimaleiknum og fór í 53% í útileiknum. Hafa ber í huga að fótboltalandsliðið hefur aldrei komist á lokamót ólíkt handboltalandsliðinu sem spilar nánast árlega á slíkum mótum. Leikir í lokamótum draga ætíð fleiri áhorfendur að skjánum en leikir í undankeppni.

Ef fótboltalandsliðið nær að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins má búast við að áhorfið á leiki liðsins muni ná nýjum hæðum - jafnvel hæðum áramótaskaupsins. Skaupið hefur alltaf verið eitt vinsælasta sjónvarpsefnið á hverju ári. Þó aðeins hafi dregið úr áhorfinu í sögulegu samhengi var síðasta skaup með 66,4% meðaláhorf.  Og þar sem fótboltastrákarnir eru farnir að laða svo marga áhorfendur að skjánum er spurning hvort fótboltinn sé að taka við af handboltanum sem þjóðaríþrótt okkar Íslendinga?"