*

Sport & peningar 12. nóvember 2016

Er Mourinho sá rétti?

Frammistaða United í fyrstu tíu deildarleikjunum undir stjórn Mourinho var verri heldur en byrjunin undir stjórn David Moyes.

Alexander Freyr Einarsso

Stuðningsmenn enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United tóku því fagnandi þegar margra mánaða sögusagnir urðu að veruleika þann 27. maí síðastliðinn og hinn litríki Jose Mourinho var ráðinn knattspyrnustjóri félagsins. Mourinho er einn sigursælasti stjóri samtímans og hefur unnið átta meistaratitla í fjórum löndum auk þess sem hann hefur unnið Meistaradeildina og fjölda annarra bikara.

Ekki minnkaði spennan þegar „sá sérstaki“ fékk nær ótakmarkaðar fjárhæðir til leikmannakaupa. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Manchester United keypti Paul Pogba aftur til félagsins fyrir 89 milljónir punda og gerði franska miðjumanninn að dýrasta leikmanni sögunnar. Einn besti framherji samtímans, Zlatan Ibrahimovic, gekk í raðir United á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain og þóttu þau félagaskipti ekki síður spennandi. Þar að auki eyddi United háum fjárhæðum í þá Henrikh Mkhitaryan og Eric Bailly og ljóst var að leikmannahópurinn á Old Trafford var orðinn ansi sterkur undir stjórn hins sigursæla Mourinho. Eðlilegt var að búast við því að liðið myndi gera raunverulegt tilkall til Englandsmeistaratitilsins og gæti bundið enda á eyðimerkurgönguna sem fylgt hefur brotthvarfi goðsagnarinnar Sir Alex Ferguson.

Blaut tuska eftir góða byrjun

Eftir frábæra byrjun er ljóst að frammistaða og stigasöfnun United hefur verið vonbrigði í augum stuðningsmanna þegar rúmur fjórðungur tímabilsins er liðinn. Fyrir 3-1 sigur gegn Swansea hafði liðið einungis 15 stig eftir 10 leiki og hafði þar af einungis unnið einn af sjö leikjum sínum. Meðal svekkjandi úrslita voru tap gegn Watford og jafntefli gegn Stoke og Burnley, en verstu úrslitin til þessa voru niðurlægjandi 4-0 tap gegn gömlu félögum Mourinho í Chelsea á Stamford Bridge. Bresku blöðin gengu svo langt að kalla Mourinho „þann niðurlægða“ að leik loknum, enda var um að ræða hans stærsta tap í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi. Ekki bætti úr skák þegar hann sakaði kollega sinn hjá Chelsea, Antonio Conte, um vanvirðingu eftir leikinn. Hann skammaði Conte fyrir að fagna fjórða marki Chelsea og þótti það óíþróttamannsleg hegðun. Conte þvertók fyrir ásakanirnar og sagðist alltaf sýna andstæðingum sínum virðingu.

Fjölmiðlar hafa einnig verið duglegir að halda því fram að Mourinho líði ekkert sérlega vel í Manchester, þar sem hann er fjarri fjölskyldu sinni. Hann býr enn á hóteli í borginni og greindi frá því að sér þætti „ömurlegt“ að geta ekki farið af hótelinu án þess að verða fyrir áreiti í borginni. Portúgalinn brást síðan illa við fyrirsögnum blaðanna sem vildu meina að honum liði illa í Manchesterborg. „Þið þurfið að selja blöðin ykkar og þið skrifið lygar. Þið skrifið jafnvel lygar um mig. Ég sagði að það væri ömurlegt að vera eltur í hvert skipti sem ég yfirgef hótelið mitt og þið skrifið að ég hafi sagt að líf mitt í Manchester væri ömurlegt,“ sagði Mourinho ósáttur á blaðamannafundi.

Þá var hann rekinn upp í stúku í markalausu jafntefli Manchester United gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og var dæmdur í eins leiks hliðarlínubann. Dómarinn Mark Clattenburg var ósáttur með gagnrýni Mourinho í hálfleik og sýndi honum reisupassann. Margir eru á því að gagnrýni Mourinho hafi átt rétt á sér og að United hefði átt að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleiknum – en þetta atvik er einungis eitt af mörgum sem benda til þess að Portúgalinn finni fyrir sívaxandi pressu. Það kann að hljóma kaldhæðnislega að United hafi síðan loksins unnið leik þegar Mourinho var í banni og aðstoðarmaður hans, Rui Faria, stýrði liðinu frá hliðarlínunni.

Verri byrjun en hjá Moyes

Frammistaða United í fyrstu tíu deildarleikjunum undir stjórn Mourinho var verri heldur en byrjunin undir stjórn David Moyes á fyrsta tímabilinu eftir að Sir Alex Ferguson settist í helgan stein. Moyes nældi sér í 17 stig í fyrstu tíu leikjunum og skoraði United 17 mörk. Mourinho náði einungis í15 stig þrátt fyrir að hafa eytt tæpum 150 milljónum punda í leikmenn á meðan Moyes styrkti lið sitt nánast ekkert. Louis van Gaal, forveri Mourinho, byrjaði hins vegar enn verr og var einungis með 13 stig eftir fyrstu tíu leiki sína tímabilið 2014-15.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð  

Stikkorð: Knattspyrna  • Manchester United  • Mourinho