*

Tíska og hönnun 21. nóvember 2013

Erfingi bankaveldis selur heimili sitt á Manhattan

The Mellon house er hús í frönskum stíl á miðri Manhattan. Húsið er til sölu og kostar 5,6 milljarða króna.

Hús sem nefnist The Mellon House er til sölu á Upper East Side eða austan megin við Central Park á Manhattan í New York borg. Húsið byggði Paul nokkur Mellon, erfingi bankaveldis, og kona hans, Bunny Mellon, árið 1965.

Afi Paul, Thomas Mellon, stofnaði bankaveldið Mellon Bank og eru erfingjar Thomas á lista Fortune yfir efnaðasta fólk Bandaríkjanna.

Húsið er stórfenglegt. Það er í frönskum neó-klassískum stíl og minnir á hús í franskri sveit. Paul Mellon var mikill listaverkasafnari og var fjöldinn allur af listaverkum geymdur í bókasafni hússins sem er með útsýni út í garðinn og yfir sundlaugina og garðhýsi. Í garðinum varði kona hans, Bunny, löngum stundum en hún var sjálf mikil listakona og hannaði meðal annars Rósagarðinn í Hvíta húsinu í Washington og var mikil vinkona Jacqueline Kennedy Onassis.

Húsið er algjört listaverk og er búið öllum helstu nútímaþægindum. Í því eru fimm til átta svefnherbergi, herbergi fyrir starfsfólk, átta baðherbergi, vínherbergi og lyfta. Húsið kostar 46 milljónir dala eða 5,6 milljarða króna og er rúmlega 1000 fermetrar. Nánar upplýsingar og fleiri myndir má sjá hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Fasteignir  • Manhattan