*

Sport & peningar 30. mars 2013

Erlendum leikmönnum fækkað

Nýjar reglur um notkun liða á erlendum leikmönnum taka gildi á næsta tímabili.

Guðni Rúnar Gíslason

Samþykkt var á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) á dögunum að breyta reglum um notkun liða á erlendum leikmönnum. Á næsta tímabili verður svokölluð 4+1 regla við lýði sem felur í sér að einungis einn erlendur leikmaður er leyfður inni á vellinum í einu fyrir hvert lið. Á tímabilinu sem nú er að ljúka hefur hvert lið getað notað tvo erlenda leikmenn inni á vellinum í einu.

Tillagan á ársþinginu sem sett var fram af Fjölni og Njarðvík var umdeild og féllu atkvæði á endanum þannig að tillagan var samþykkt með tveggja atkvæðamun. Þetta fyrirkomulag er þegar við lýði í efstu deild kvenna og 1. deild karla. Síðast var reglunum breytt fyrir ári og liðum leyft að hafa tvo erlenda leikmenn inni á vellinum í efstu deild.

Vægi Íslendinga verður meira

Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdastjóri KKÍ, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ýmsar hliðar séu á þessu. Til að mynda sé það jákvætt að íslenskum leikmönnum fjölgi inni á vellinum. „Það gerir það að verkum að vægi þeirra verður meira. Vonandi grípa þeir tækifærið,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.