*

Tölvur & tækni 24. október 2014

Ert þú einn af þessum níu?

Apple hélt því fram að níu viðskiptavinir hefðu lent í því að iPhone-síminn þeirra bognaði. Öllu fleiri hafa hins vegar gefið sig fram.

Eftir að Apple kynnti nýju iPhone 6 Plus snjallsímana fóru fljótlega að berast fréttir af því að burðarvirki símanna væri veikt og þeir bognuðu auðveldlega, til dæmis í vasa notandans.

Þá sendi Apple frá sér tilkynningu og sagði að þessi galli væri sjaldgæfur - einungis níu viðskiptavinir hefðu tilkynnt um gallann og áhyggjur væru óþarfar.

Nú hefur hins vegar verið stofnuð vefsíða sem ber heitið „One of the nine“, þar sem leitað er að þessum níu viðskiptavinum Apple. Eru þeir hvattir til þess að skrá sig á síðuna og birta mynd af sínu bogna eintaki.

Nú þegar síðan hefur verið starfrækt í tæpan mánuð hafa hins vegar 180 iPhone-eigendur skráð sig, og fjölgar skráningunum hratt.

Sjón er sögu ríkari.

Stikkorð: Apple  • iPhone 6 Plus