*

Ferðalög & útivist 30. ágúst 2013

Ertu að brjóta lög á ferðalagi?

Ekki smjatta á tyggjói í lest í Singapúr eða tylla þér á tröppur í Flórens með samloku því það er bannað með lögum.

Breska utanríkisráðuneytið hefur tínt saman atriði sem teljast lögbrot í ýmsum löndum. Ferðamenn eru í sérstakri hættu vegna þess að atriðin á listanum hljóma í fyrstu mjög sakleysislega enda ekki verið að tilgreina hluti eins og þjófnaði eða limlestingar heldur ögn hversdagslegri athafnir. 

Charles Hay skrifstofustjóri í ráðuneytinu segir mikilvægt að fólk kynni sér lög og reglur í löndum sem það hyggst ferðast til. Lítum á nokkur dæmi:

Feneyjar. Ef fólk sést gefa dúfum fær það sekt frá lögreglu.

Barcelona. Það er bannað með lögum að ganga um í bikiní, sundbuxum eða ber að ofan fyrir utan strandsvæðin í borginni. Viðurlögin eru sekt.

Singapúr. Skildu tyggjóið eftir heima þegar þú ferð í neðanjarðarlestina því þar er fólk sektað fyrir smjatt.

Flórens. Ef fólk sest í tröppur eða í hallargarða í námunda við kirkjur og fær sér samloku eða drykk getur það átt von á sektum frá lögreglunni. 

Sádí Arabía. Láttu það eiga sig að taka myndir af opinberum byggingum, hernaðarmannvirkjum eða höllum. Viðurlögin er handtaka og fangelsi.

Barbados. Í paradísinni Barbados er bannað með lögum að klæða sig í feluliti. Þetta á meira að segja við um börn. Viðurlögin eru sekt. 

Stikkorð: Singapúr  • Barcelona  • Ferðalög  • Vandræði  • Barbados  • Vesen  • Örvænting  • Flórens  • Feneyjar  • Sádí Arabía