*

Matur og vín 16. júní 2013

Eva Laufey: Íslensk hnallþóra á 17. júní

Skreyta á kökuna með jarðaberjum og bláberjum svo fánalitirnir fái að njóta sín á þjóðhátíðardaginn.

„Á þjóðhátíðardaginn er svo sannarlega tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum heim í kaffiboð áður en haldið er í skrúðgöngu. Í kaffiboðum á sjálfan þjóðhátíðardaginn er nánast nauðsyn að bera fram íslenska hnallþóru“, segir Eva Laufey Hermannsdóttir, matarbloggari og viðskiptafræðinemi. Eva Laufey vinnur nú að sinni fyrstu matreiðslubók sem kemur út á haustmánuðum.

Ég mæli með að þið skreytið kökuna með ferskum jarðaberjum og bláberjum. þá fá fánalitirnir að njóta sín og kakan verður enn fallegri. 1. Ég er mikil kökumanneskja og er þessi kaka í sérstöku uppáhaldi. Rjómi, súkkulaði og fersk ber. Það verður nú varla betra en það! Hnallþóran er af einföldustu gerð og það er mjög þægilegt að baka hana. Þetta er kakan sem fangar augað og kitlar bragðlaukana. Njótið vel.

 • Íslensk Hnallþóra
 • 100 g smjör, við stofuhita
 • 40 g kakó
 • 2 dl vatn
 • 220 g sykur
 • 2 egg
 • 175 g hveiti
 • 1/2 tsk. matarsódi
 • 2 eggjahvítur
 • 80 g sykur
 •  

Fylling:

 • 4 dl rjómi
 • 2 tsk flórsykur
 • Fersk ber t.d. jarðaber og bláber

Aðferð: 

Hitið ofninn í 160°C. Setjið kakó í litla skál og hellið sjóðandi vatni yfir, hrærið vel saman. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós, bætið eggjum út í, einu og einu í senn. Blandið súkkulaðblöndu, hveiti og matarsóda út í og hrærið vel saman við. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar í smá stund. Stífþeytið eggjahvítur, bætið sykrinum saman við smám saman. Blandið eggjahvítublöndunni varlega saman við súkkulaðiblönduna.

Smyrjið tvö form (ég notaði 22 cm í þvermál) og skiptið súkkulaðideiginu á milli formana. botnana í 30 - 35 mínútur við 160°C.  Kælið þá vel áður en þið takið þá úr formunum. 

Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við, skiptið honum á milli botnana og leggið þá saman. Skerið berin og setjið á milli, ásamt rjómanum. Setjið rjóma ofan á kökuna  og dreifið berjum yfir kökuna. Rífið niður dökkt súkkulaði og sáldrið yfir kökuna. Það er einnig mjög gott að smyrja góðri sultu á milli botnana, prófið ykkur áfram. 

 Gleðilegan þjóðhátíðardag.