*

Matur og vín 13. júlí 2013

Eva: Smakkaði eins margar makkarónur og maginn þoldi

Eva Laufey Hermannsdóttir, matarbloggari og viðskiptafræðinemi, segir makkarónubakstur þolinmæðisvinnu.

„Þegar ég fór til Parísar fyrir nokkrum árum smakkaði ég eins margar makkarónur og maginn þoldi þarna úti og þegar ég kom heim þá fór ég strax að prófa mig áfram í makkarónubakstri," segir Eva Laufey Hermannsdóttir, matarbloggari og viðskiptafræðinemi.  

„Ég ákvað að skella mér á námskeið hjá Salt eldhúsi í vetur og þar lærði ég almennilega að baka þessar góðu kökur. Ég mæli hiklaust með námskeiði hjá henni Auði hjá Salt eldhúsi, það er nauðsynlegt að þekkja réttu tökin. Makkarónubakstur er svolítill þolinmæðisbakstur en góðir hlutir gerast hægt, svo mikið er víst.“

Eva segir það vera á allra færi að baka makkarónur fyrst hún geti bakað ágætis makkarónur. Hún segir enga ástæðu til að þora ekki. Uppáhaldstegund hennar í bakstrinum eru súkkulaðikökurnar. „Ég elska súkkulaði og þess vegna eru súkkulaðimakkarónur í sérstöku uppáhaldi. Súkkulaðimakkarónur með súkkulaðifyllingu með dass af sjávarsalti. Það er samt erfitt að segja að ein kaka sé meira uppáhalds því fyllingarnar eru svo margar og það er svo gaman að prófa sig áfram," segir Eva Laufey. 

Nánar er talað við Evu Laufeyju í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Eftir vinnu, sem kom út í fyrsta skipti með Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.