*

Menning & listir 30. nóvember 2012

EVE Online á eitt virtasta listaverkasafn heimsins

Museum of Modern Art í New York opnar sýningu á merkilegum tölvuleikjum á næsta ári.

Íslenski tölvuleikurinn EVE Online, sem margoft hefur verið verðlaunaður fyrir fallega grafíska hönnun, hefur hlotið enn einn heiðurinn, en EVE er einn fjórtán leikja sem valdir hafa verið til sýningar í Museum of Modern Art í New York. MoMA er eitt af virtustu listaverkasöfnum í heiminum.

Tölvuleikir og tölvuleikjaspilarar hafa þurft að sitja undir ámæli þeirra sem telja sig ábyrgari og alvarlegri. Engu virðist skipta að þeir sem njóta þess að spila tölvuleiki hlaupa á hundruðum milljóna og að tölvuleikjageirinn er fyrir löngu búinn að taka fram úr kvikmyndaiðnaðinum hvað varðar tekjur.

Menn hafa sérstaklega reynst tregir til að viðurkenna listrænt og menningarlegt gildi tölvuleikja, en hugsanlega mun nýjasta ákvörðun MoMA leiða til hugarfarsbreytingar. Safnið hefur ákveðið að vera með sýningu á tölvuleikjum í Philip Johnson galleríunum og hefst sýningin í mars. Nú þegar hafa fjórtán tölvuleikir verið valdir til sýningarinnar, en markmiðið er að vera með um 40 leiki til sýningar.

Í frétt New York Times er haft eftir safnverðinum Paola Antonelli að leikirnir séu valdir með tilliti til sögulegs og menningarlegs mikilvægis þeirra, fagurfræðilegrar tjáningar, hönnunar og nýsköpunar. Sjá má myndir úr leikjunum fjórtán hér fyrir neðan.

EVE Online kom fyrst út árið 2003 og er eini fjölspilaraleikurinn sem verður á sýningunni, enn sem komið er að minnsta kosti.

 

Pac-Man kom fyrst út árið 1980 og er meðal best þekktu tölvuleikja sögunnar.

 

Rússneski leikurinn Tetris kom út í Rússlandi árið 1984 og sló í gegn á heimsvísu.

 

Ævintýraleikurinn Another World kom út árið 1991 og þótti grafíkin nýstárleg og kvikmyndaleg.

 

Tölvuleikurinn Myst kom út árið 1993 og var mest seldi PC tölvuleikur þar til The Sims tók fram úr honum árið 2002. 

 

Þrátt fyrir nafnið kom SimCity 2000 út árið 1994. Spilari tekur að sér að byggja upp og skipuleggja ímyndaða borg og hefur leikurinn notið gríðarlegra vinsælda.

 

Í leiknum Vib Ribbon, sem kom út árið 1999, þarf spilarinn að hjálpa kanínunni Vibri á áfangastað, en þröskuldarnir í veginum ráðast af því hvaða tónlist er leikin á meðan leikurinn er spilaður.

 

Leikjajötuninn Sims sló rækilega í gegn þegar hann kom út árið 2000 og seldist leikurinn og viðbætur við hann í tugum milljóna eintaka.

 

Í japanska leiknum Katamari Damacy, sem kom út árið 2004, þarf söguhetjan að smíða stjörnurnar og tunglið, sem faðir hennar hafði eyðilagt fyrir slysni.

 

Þrátt fyrir mjög einfalda grafík þykir leikurinn Dwarf Fortress, sem kom út árið 2006, flókinn og stórskemmtilegur.

 

Í leiknum flOw, sem kom út árið 2006, er spilarinn í hlutverki einfaldrar lífveru sem vex og þroskast með því að éta aðrar og smærri verur.

 

Fáir leikir hafa vakið jafnmikla athygli við útgáfu og Portal, sem kom út árið 2007. Línur úr leiknum urðu hluti af orðfæri internetsamfélagsins, sem fékk að vita það að kakan er lygi.

 

Passage, sem kom út árið 2008, er mjög einfaldur grafískt séð og tekur aðeins fimm mínútur að spila. Í honum er aftur á móti tekið á mjög alvarlegum málum, lífi, dauða og kostum og göllum hjónabandsins.

 

Í Canabalt, sem kom út árið 2009, hleypur persónan endalaust til að forðast hryllilegan dauðdaga. Í kjölfarið komu út ótaldar eftirlíkingar af leiknum.