*

Tölvur & tækni 23. mars 2012

EVE spilarar yfir sig hrifnir af nýja leiknum

Í fyrsta sinn var sýnd opinberlega tengingin milli EVE Online og Dust 514 og féll kynningin aldeilis í kramið hjá viðstöddum.

Bjarni Ólafsson

Óhætt er að segja að kynning á nýjum tölvuleik, Dust 514, hafi fallið í kramið hjá gestum uppskeruhátíðar CCP, sem gengur undir nafninu Fanfest. Að ákveðnu leyti var CCP að taka áhættu með því að sýna leikinn fyrst þessum hópi ákafra EVE Online spilara, því um nokkurt skeið hafa verið almennar áhyggjur þeirra á meðal um hvaða áhrif tenging EVE og Dust muni hafa á þeirra gamla leik.

Starfsmenn CCP þurftu því að finna rétta leið til að kynna leikinn fyrir fjölmiðlum og öðrum hátíðargestum og miðað við viðbrögðun fundu þeir hana. Fyrst stigu á svið tveir starfsmenn, sem vinna við hönnun Dust í Shanghæ í Kína. Þeir fóru í gegnum fyrstu skrefin í leiknum og gátu viðstaddir fylgst með því sem fram fór í leiknum á risastórum skjá. Svo hófst bardaginn og var greinilegt að áhorfendur voru ánægðir með grafík og gæði leiksins. Svo kom að þeim tímapunkti að tvímenningarnir komust ekki lengra áfram í leiknum vegna þess að vörnin hjá hinu liðinu var of sterk.

Að þessum orðum sögðum gengu tveir aðrir starfsmenn CCP inn á sviðið og komu sér fyrir við tvær PC tölvur. Strax breyttist stóri skjárinn og til viðbótar við Dust leikinn mátti sjá geimskip í EVE Online, sem stýr var af þessum tveimur starfsmönnum. Að loknu stuttu gríni kom svo að því sem langflestir gestirnir höfðu beðið eftir. Geimskip í EVE beindi stórum leisigeislabyssum sínum að plánetunni og hóf skothríð. Nokkrum sekúndum síðar mátti sjá geislana hitta í virki andstæðinganna í Dust. Salurinn bókstaflega sprakk, enda var hann fullur af tölvuleikjaspilurum sem, eins leiðinlega og það hljómar, líta mjög niður á leikjatölvuspilara. Þarna sáu þeir hins vegar geimskip í þeirra eigin leik rústa virki í leikjatölvuleiknum og sáu margir þeirra eflaust í hillingum framtíð þar sem þeir geta sjálfir unnið slík þrekvirki.

Þær efasemdir sem EVE spilarar kunna að hafa haft í garð leiksins eru hins vegar nær horfnar eftir kynninguna í gær. Viðhorfið til Dust 514 er allt annað og jákvæðara nú en bara fyrir nokkrum dögum og það sem mest er um vert er að EVE spilararnir virðast vera farnir að líta á nýja leikinn sem viðbót við EVE heiminn, en ekki keppinaut um athygli frá CCP. Stóri bróðir virðist vera að taka þann litla í sátt.

Stikkorð: CCP  • Dust 514  • Eve Online