*

Bílar 7. september 2019

Evoque eða XC40

Jepplingar eru ekki bara jepplingar. Verðbilið er breitt, búnaðurinn líka og efnisval og gæði.

Guðjón Guðmundsson

Af mörgu að taka. Það er nefnilega málið. Stallbakar, hlaðbakar, langbakar – þessir „venjulegu“ bílar eru tegundir í útrýmingarhættu. Það þarf ekki annað en að opna augun í umferðinni til að sjá einsleitnina. Það eru allir á jepplingum. Þýskir, enskir, japanskir, kóreskir og jafnvel kínverskir jepplingar. Þetta má víst ekki segja því þótt Volvo sé í kínversku eignarhaldi og settur saman þar í landi og í Belgíu, er hann hannaður og upphugsaður í Svíþjóð.

En jepplingar eru ekki bara jepplingar. Verðbilið er breitt, búnaðurinn líka og efnisval og gæði. „Premium“ jepplingaflokkurinn er efstur í píramídanum með merkjum eins og BMW, Audi, Mercedes-Benz, Lexus, Volvo, Jaguar og Land Rover Range Rover. Massasalan er hins vegar í merkjum eins og Kia, Hyundai, Nissan, Renault, Skoda og VW.

Svo getur verið mikill munur á bílum innan lúxusmerkjahópsins. Í flokki minni „premium“ jepplinga eru til dæmis Volvo XC40 og Land Rover Range Rover Evoque. Þeir eru síðan til í fjölmörgum útfærslum en hér á landi er Evoque þó einungis boðinn með 2ja lítra dísilvél með mildu hybrid-kerfi sem skilar um 150 hestöflum og umtalsverðri sparneytni. Hann var tekinn til kostanna og borinn saman við talsvert ólíkan XC40 með fjögurra strokka, 190 hestafla dísilvél með AWD-kerfinu frá Volvo.

Klassíker?
Fegurðin er afstæð og í augum sjáandans. Að því sögðu skal því slegið fram að Range Rover Evoque er formfegursti jepplingurinn á markaði. Hann aðgreinir sig fullkomlega frá fjöldanum með beinum og skörpum formlínum, stórri framrúðu og afturhallandi þaki sem gefur honum einstaklega straumlínulagað og sportlegt yfirbragð.

Það sætti tíðindum þegar hann kom fyrst á markað sumarið 2011. Range Rover hafði fram að því alfarið framleitt stóra lúxusjeppa en jepplingamarkaðurinn var að taka allt yfir og breski framleiðandinn varð að taka þátt eða sitja hjá. Útspilið var velheppnað að öllu leyti hvað útlitshönnun varðar. Bíllinn var kjörinn „konubíll ársins í heiminum“ 2012 en líka Jeppi ársins í Bandaríkjunum og Bíll ársins hjá Top Gear og Autoexpress. Fyrsta árið seldust yfir 90 þúsund bílar þannig að viðtökurnar voru fínar.

Nú er Evoque kominn í annarri kynslóð og hefur breyst furðulítið frá fyrstu gerð. Það er til marks um velheppnaða og hugsanlega klassíska útlitshönnun bílsins. Prófaður var Evoque R Dynamic Hybrid sem kemur með 2ja lítra dísilvél, 150 hestafla, og mildri tvinnaflrás sem endurheimtir orku við hemlun og hleypir út í kerfið þegar þörf er fyrir viðbótarafl eins og t.d. snögga hröðun. Vélin er hljóðlát eins og allt inni í ríkulegu innanrýminu. En þegar komið er í þennan klassa býst maður við meiri snerpu og afli. Bíllinn er vissulega framleiddur með aflmeiri vélum, 180, 200, 240, 249 og 300 hestafla, en hér er áherslan lögð á 150 hestafla bílinn.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér