*

Ferðalög & útivist 15. maí 2013

Evrópska borgin Istanbúl

Maður getur alltaf búist við því að fá góðan mat í Istanbúl.

Einar Örn Einarsson

Istanbúl er ein af stærstu borgum heims og næstfjölmennasta borg Evrópu. Borgin er á mörkum Evrópu og Asíu og er undir sterkum áhrifum frá báðum heimsálfum.

Að koma til borgar í múslímalandi er alltaf dálítið framandi fyrir okkur Vesturlandabúa. Bara það að sjá mínaretur í staðinn fyrir kirkjuturna þegar maður keyrir í gegnum borgina gefur borginni framandi svip.

Fyrir utan moskur á hverju götuhorni er Istanbúl þó mjög evrópsk. Ég átti einhvern veginn von á að henni myndi svipa meira til Kaíró en Róm, en svo er ekki. Borgin er mun rólegri, umferðin er skipulagðari og rusl á götunum er mjög sjaldgæft.

Á nokkrum dögum er hægt að sjá fjölmarga merkilega hluti í Istanbúl. Merkilegast er Aya Sofia, sem var stærsta kirkja heims í nærri því þúsund ár. Henni var breytt í mosku árið 1453 en í dag er kirkjan safn, sem þúsundir ferðamanna heimsækja. 200 metrum frá Aya Sofia er svo Bláa moskan og þar rétt hjá er Topkapi-höllin, sem var heimili Ottoman-soldána í 400 ár. Bara einn af þessum þremur stöðum myndi réttlæta heimsókn til borgarinnar, en að þeir séu allir á 500 metra radíus gerir svæðið að einum af merkustu ferðamannastöðum heims.

Auk þess að skoða þessa merku staði í Sultanahmet-hverfinu er stutt að fara á Grand Bazaard – einn frægasta markað heims og þar rétt hjá skoða Süleymaniye-moskuna, þá stærstu í Istanbúl og eina fallegustu í heimi. Maturinn er einnig frábær og það virtist skipta merkilega litlu máli hvort maður borðar á þeim stað sem allar handbækur mæla með eða hvort maður endar á túristastað með myndamatseðli á ensku. Alls staðar getur maður átt von á góðum mat.

Ferðapistill Einars Arnar birtist í Viðskiptablaðinu 8. maí 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Stikkorð: Istanbúl  • Tyrkland