*

Hitt og þetta 7. júlí 2013

Eyddi launahýrunni í Chanel sem unglingur

Júlía Margrét Alexandersdóttir er ekki hrifin af ódýrum andlitskremum og byrjaði á toppnum þegar hún fór að fjárfesta í kremum sem unglingur.

Lára Björg Björnsdóttirr

„Ég var ekki nema unglingur þegar ég áttaði mig á því að þessi krem sem vinkonur mínar voru að nota voru drasl. Hræódýr krem, með blómalyktum og í tyggjólitum, sem aðeins unglingar kaupa því þeir vita ekki betur og er ekki sagður sannleikurinn. Þetta var alveg eins þá og í dag; mark­aðurinn hendir draslinu í unglingana. Þarna hófst samband mitt við dýr krem og ég eyddi frekar launahýrunni úr ungl­ingavinnunni allri í Chanel­krem en átti í staðinn aldrei flottan síma," segir Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður, um hvaða krem hún notar helst.

„Ég hef tekið tímabil og flippað aðeins með ódýrari kremum en ég get það ekki nema stuttan tíma í senn og kannski er þetta vítahringur; að ég þoli ég ekki drasl því ég byrjaði á toppnum. Uppáhaldskremin mín eru nokkur en ég hef prófað allt, það er að segja af því sem kostar, en viðurkenni að ég nota miklu minna magn af kremum í dag því í gamla daga smurði maður bara afganginum í þvottapokann. Sothys hefur verið í miklu uppáhaldi en ég hef notað eitt fyrir vetur og annað fyrir sumar. Það er hins vegar eitt Chanel­krem sem ég verð eiginlega að nota reglulega, þó ég noti önnur krem líka," segir Júlía Margrét. 

Nánar er fjallað um dýr og fín krem og spjallað við fleiri konur um uppáhaldskremin í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kemur nú út í fyrsta skipti. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.