*

Tíska og hönnun 25. febrúar 2014

Eyja til sölu rétt fyrir utan South Beach á Miami

Viltu veiða humar niðri á höfn á eyjunni þinni og taka síðan þyrluna á barinn á South Beach á Miami? Þá er þetta eignin fyrir þig.

Pumpkin Key heitir eyja sem nú er til sölu í Card Sound Bay á Flórida Keys. Það tekur einungis tíu mínútur að fara til South Beach á Miami með þyrlu og tíu mínútur tekur að sigla til Ocean Reef sem er einkaklúbbur á Key Largo þar sem er lendingarbraut fyrir einkaþotur.

Eyjan þykir tilvalin fyrir þau sem vilja næði og frið en ekki algjöra einangrun. Á henni er höfn fyrir tólf báta og eitt stórt hús með þremur svefnherbergjum og tvö minni hús fyrir starfsfólk.

Allt umhverfis Pumpkin Key er hægt að stunda stórkostlega humarveiði. Og ef fólki finnst gaman að kafa og skoða neðansjávarlífið eru kóralrifin í kringum eyjuna margrómuð. Fólk kemur alls staðar að úr heiminum til að kafa í flóanum sem eyjan er í.

Svo, þetta er allt saman hið besta mál fyrir þau sem elska humar, frið, náttúrufegurð en vilja samt geta skotist til Miami Beach á barinn þegar þögnin á eyjunni verður of ærandi. Allt heila klabbið kostar 110 milljónir dala en nánari upplýsingar má finna á Sotheby´s fasteignavef.

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Fasteignir  • Flórida  • Miami  • South Beach