*

Sport & peningar 18. mars 2021

F1 ferill Schumacher yngri að hefjast

Liðsstjóri Ferrari telur að Mick Schumacher geti byrjað að keyra undir merkjum Ferrari í Formúlu 1 árið 2023.

Mick Schumacher þreytir frumraun sína í Formúlu 1 eftir rúma viku þegar keppnistímabilið hefst í Bahrain. Mick er sonur Michael Schumacher, sem varð sjö sinnum meistari í F1, og fetar því í stór spor. 

Mick verður hluti af Haan liðinu ásamt rússanum Nikita Maxepin. Schumacher yngri, sem verður 22 ára á mánudaginn næsta, er ríkjandi meistarinn í Formúlu 2 en hann var þar hluti af akademíu Ferrari. Einnig vann hann Formúlu 3 árið 2018.

Mick byrjaði frá tveggja ára aldri að keyra um garðinn á go-kart bíl. Til þess að komast frá fjölmiðlaathygli á yngri árum notaði hann ættarnafn móður sinnar, Betsch, þegar hann keppti í unglinga mótarröðum í Evrópu. Það var ekki fyrr en hann byrjaði í F4 sem hann tók upp Schumacher nafnið aftur. 

„Það eru forréttindi fyrir mig að koma með ættarnafnið Schumacher inn í Formúlu eitt á ný,“ sagði Mick í viðtali við CNN á dögunum.

Mattia Binotto, liðsstjóri Ferrari, telur að Mick geti byrjað að keyra undir merkjum Ferrari í F1 árið 2023. Binotto gerir þó ráð fyrir því að fyrsta tímabil Schumacher í F1 geti reynst honum mjög erfitt en að hann muni láta ljós sitt skína á sínu öðru tímabili. 

„Ef þú horfir á reynslu hans í bæði F2 og F3, þá hefur hann verið að skila sínu besta á öðru tímabilinu en ekki því fyrsta,“ er haft eftir Binotto í frétt Formula1News.co.uk.      

Stikkorð: Formúla 1  • F1  • Mick Schumacher  • Mattia Binotto