*

Veiði 6. desember 2015

Fáar ár jafn magnaðar og Kjarrá

Félagarnir Guðmundur Guðjónsson og Einar Falur Ingólfsson gefa út bók um Þverá og Kjarrá. Bókin er á íslensku og ensku.

Trausti Hafliðason

Guðmundur Guðjónsson er mörgum veiðimönnum kunnur því hann hefur skrifað fjölmargar bækur um veiði og flutt fréttir úr veiðiheiminum á vefnum Vötn og veiði, sem hann ritstýrir. Guðmundur, í félagi við Einar Fal Ingólfsson ljósmyndara og blaðamann á Morgunblaðinu, er nú að gefa út bók um Þverá og Kjarrá. Er þetta fjórða bókin sem þér skrifa saman en áður hafa komið út bækur um Laxá í Kjós og Bugðu, Langá á Mýrum og Grímsá.

Auk þess að fjalla um Þverá og Kjarrá er í bókinni einnig fjallað um hliðarána Litlu Þverá. Að sögn Guðmundar er mikil vinna bakvið svona bók.

„Ég held að mér sé óhætt að segja að bókin um Þverá og Kjarrá sé búin að vera í vinnslu í þrjú ár," segir hann. „Bókin er bæði á íslensku og ensku eins og flestar hinna bókanna.

Við leggjum mikla áherslu á að rekja sögu árinnar. Sú vinna snýst bæði um að leita að skriflegum heimildum enn einnig að taka viðtöl við fólk sem getur rifjað upp gamla tíma. Í  bókinni er fjöldinn allur af gömlum ljósmyndum, sem okkur hefur tekist að grafa upp. Bókin er þannig upp sett að í byrjun er sagan rakin og elstu myndirnar birtar, síðan eru auðvitað veiðistaðalýsingar með loftmyndum, frásagnir fólks og viðtöl. Í lok bókarinnar eru birtar fleiri myndir, gamlar myndir sem þó eru nær okkur í tíma en þær elstu sem birtar eru í byrjun bókarinnar."

Í einangrun við Kjarrá

„Veiðistaðalýsingarnar eru mjög stór hluti af bókinni. Þar er skráð lýsing Andrésar Eyjólfssonar í Síðumúla. Hann er með eindæmum kunnugur ánni og líklega þekkir engin hana betur en hann.

Þegar við fórum að kanna heimildir um veiði þá voru þær elstu frá 1933, þó menn hafi verið farnir að veiða í ánni fyrr. Það var mjög skemmtilegt og sérstakt að lesa um hrossanotkunina við Kjarrá. Hún er töluvert langt frá byggð og því þurftu menn að fara þangað ríðandi um torfærur.

Ég verð að segja að fyrir mig persónulega þá finnst mér fá veiðisvæði á landinu vera magnaðri en Kjarrá. Ef maður fengi að ráða þá myndi maður helst vilja vera þar með annan fótinn á hverju sumri. Þegar maður þarna upp frá þá er maður í algjörum hálendis-einangrunar-veiðiskap. Til dæmis er nánast ekkert símasamband þarna og hafa leigutakar merkt þá staði þar sem mögulegt er að ná sambandi með því að setja upp skilti. Þessi skilti eru kannski einhvers staðar uppi á hól.

Vegalengdirnar eru miklar og þar sem vegurinn endar endar veiðisvæðið alls ekki því hægt er ganga lengst upp eftir og finna góða veiðistaði. Mælst er til þess að veiðimenn í Kjarrá séu á vel útbúnum jeppum því vegurinn er lélegur og grófur. Ef veiðimenn vilja fara með fram ánni á hrossum þá er það hægt og leigutakarnir bjóða upp á slíka þjónustu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.