*

Tölvur & tækni 29. maí 2012

Facebook vinnur að smíði farsíma

Ekki er útilokað að íslenskættaða hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software þrói vafra fyrir Facebook-farsímann.

Mark Zuckerberg, forstjóri og einn stofnenda samfélagsmiðilsins Facebook, er sagður vinna ásamt samstarfsfólki sínu að Facebook-farsíma sem væntanlegur mun á markað á næsta ári. Í netútgáfu Guardian af málinu segir að Facebook hafi nýverið veitt yfir til sín her vélbúnaðar- og hugbúnaðarsérfræðinga frá Apple, þar á meðal einn sem vann að gerð iPad-spjaldtölvunnar. 

Guardian hefur eftir öðrum heimildum, þar á meðal bandaríska stórblaðinu The New York Times, að vinnuheiti verkefnisins sé Buffy og vinni Facebook með farsímaframleiðandanum HTC að þróun símans. Fyrirmyndin mun vera Kinde Fire-tölvan frá Amazon sem keyrir á sérsniðnum Android-stýrikerfi frá Google. 

Guardian segir ekki um flökkusögu að ræða eins og títt er í tölvugeiranum. Vitnað er til þess að forsvarsmenn Facebook hafi leitað hófanna hjá framleiðendum tækjabúnaðar í Asíu auk þess sem smáforritaverslun Facebook og kaup á mynddeiliforritinu Instagram beri þess merki að eitthvað sé í vændum þar innandyra. 

Þá segir Guardian að leitað hafi verið eftir samstarfi við norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software um vafrasmíðina. Fyrirtækið, sem Jón von Tetschner stofnaði fyrir sautján árum, hefur frá upphafi þróað og rekið samnefndan vafra bæði fyrir tölvur, farsíma og ýmis nettengjanleg tæki. 

Stikkorð: Facebook  • Opera Software