*

Hitt og þetta 9. maí 2013

Fáðu sem mest út úr vinnuferðinni

Fólk sem ferðast mikið vegna vinnunnar fer kannski til sömu borgarinnar mörgum sinnum á ári án þess að þekkja hana neitt.

Þegar fólk þarf að sækja fundi í útlöndum á vegum vinnunnar er algengt að það geri einmitt það, fari af flugvelli á hótel og þaðan á fundinn og síðan heim.

Fólk sér í mesta lagi umhverfið í kringum hótelið og hugsanlega eitt feitt steikhús sem er fullt af liði í jakkafötum sem er einmitt líka í vinnuferð.

Stuff.co.nz hefur tekið saman nokkur skemmtileg ráð fyrir þau sem vilja fá eitthvað meira út úr vinnuferðunum en bara útsýnið úr fundarsalnum eða úr hótelherberginu.

Notaðu leiðsögubók. Slíkar bækur eru fullar af upplýsingum um skemmtileg hverfi, bari og veitingastaði. Finndu hverfi sem þér líkar, farðu þangað og hentu síðan bókinni í ruslið.

Ekki búa á hóteli. Leigðu íbúð. Þetta getur verið ódýrara og lætur þér líða meira eins og heimamanni.

Vertu úthvíld(ur). Reyndu að sofa í flugvélinni ef þú getur, þambaðu vatn og taktu c-vítamín.

Reyndu að villast. Ef þú ert ekki í tímaþröng ekki bara hoppa upp í næsta leigubíl heldur labbaðu eða taktu strætó. Þú villist sennilega en það er einmitt tilgangurinn. Það er á þessum leiðöngrum sem fólk rambar á stórskemmtilega staði. Ekki samt æða inn í eitthvert gettó. Þú vilt koma heil(l) heim.

Talaðu tungumál heimamanna. Leggðu nokkra frasa á minnið og vertu óhrædd(ur) að láta vaða í búðum og á veitingastöðum.

Forðastu túristastaði. Farðu í úthverfi og ráfaðu um. Farðu á markað eða litla veitingastaði úr alfaraleið.

Stikkorð: útlönd  • Skemmtun  • Gaman  • Vinnuferðir