*

Sport & peningar 4. mars 2013

Fær fimmtán milljarða fyrir að spila fótbolta

Launasamningur Joe Flacco er sá þriðji stærsti sem leikmaður í bandarískum fótbolta hefur gert.

Joe Flacco, leikstjórnandi bandaríska fótboltaliðsins Baltimore Ravens, kallaði yfir sig háð margra þegar hann sagðist sjálfur vera einn af bestu leikstjórnendum í heiminum áður en síðasta tímabil hófst. Hann hló þó síðast og best enda stóðu Ravens uppi sem sigurvegarar í Superbowl úrslitaleiknum þetta árið.

Tímasetningin hefði ekki getað verið betri fyrir Flacco því samningur hans við liðið hefði runnið út eftir tímabilið og hann var því í fyrnasterkri samningsstöðu. Gengið hefur verið frá nýjum samningi við Flacco sem hljóðar upp á einar 120,6 milljónir dala á næstu sex árum, andvirði um 15 milljarða króna. Þetta er þriðji stærsti samningur sem gerður hefur verið við leikmann í bandarískum fótbolta og aðeins Calvin Johnson og Michael Vick hafa gert stærri samninga.

Hafa ber þó í huga þegar samningar í fótboltanum eru ræddir að í raun er öruggt að hann mun ekki fá allan þennan pening greiddann. Liðin hafa alltaf rétt á að segja upp samningum og hætta að greiða. Það sem skiptir hann því mestu máli að samningurinn gerir ráð fyrir því að hann fær hið minnsta 52 milljónir dala frá liðinu, hvernig sem fer. Hæsta „örugga“ fjárhæðin í slíkum samningi er sú sem Drew Brees, leikstjórnandi New Orleans Saints, tryggði sér í fyrra.

Stikkorð: NFL  • Joe Flacco