*

Bílar 12. júní 2015

Fær hjartað til að slá hraðar

Nýr Ford Mustang verður frumsýndur í Brimborg á laugardaginn.

Róbert Róbertsson

Ford Mustang er stór áhrifavaldur vestrænnar dægurmenningar og ekkert lát er á vinsældum þessa glæsilega fáks. Hann hefur komið víða við í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og á sér stóran aðdáendahóp.

Nýr Ford Mustang verður frumsýndur í Brimborg á laugardaginn. Væntanlega munu margir áhugamenn um fallega bíla og ekki síst sportbíla skoða nýjustu kynslóð goðsagnarinnar sem vekur hvarvetna eftirtek og fær hjartað til að slá örar.

Sýningarbíllinn er Ford Mustang GT Premium. Hann er knúinn V8 vél sem er 6 gíra og skilar 435 hestöflum. Hann er mjög vel búinn og má þar nefna Recaro stóla, glæsilega leðurinnréttingu og GT Performance aksturspakka. Í honum er jafnframt bakkmyndavél og Shaker Pro hljómkerfi.