*

Bílar 2. apríl 2017

Fær hjartað til að taka aukaslög

Gísli Jónsson hafði lengi átt sér þann draum að eignast gamlan amerískan, tveggja dyra bíl. Gísli hefur nú loks látið drauminn rætast því hann eignaðist glæsilegan Pontiac Firebird 1968 árgerð síðastliðið haust.

Róbert Róbertsson

Ég hafði snemma mikinn áhuga á bílum og mótorhjólum. Ég fékk mér skellinöðru þegar ég var 12 ára og gerði upp mótorinn í henni. Síðan var það draumurinn að eignast flottan, amerískan bíl og þá helst tveggja dyra sportlegan,“ segir Gísli. En lífið er stundum óútreiknanlegt. Gísli lenti í alvarlegu mótorhjólaslysi 17. júní árið 1982 aðeins 21 árs að aldri. ,,Ég var á leið á mótorhjóli úr vinnu þegar bíll keyrði fyrir mig. Ég slasaðist illa og missti vinstri fótinn fyrir ofan hné. Þá var kippt undan mér fótunum í fyllstu merkingu. Ég ætlaði ekkert að fara að væla og vorkenna sjálfum mér. Það var ekki til í dæminu,” segir Gísli.

Einfættur í leigubílaakstri

Ári síðar var hann kominn með atvinnuleyfi á leigubíl þótt hann væri ekki kominn með gervifót. ,,Ég keypti fyrsta leigubílinn minn sem var Toyota Crown og hellti mér út í leigubílaakstur einfættur til að byrja með. Ég fékk síðan gervifót árið 1983 og byggði mitt fyrsta einbýlishús ári síðar. Ég eignaðist mitt fyrsta barn 1986. Ég bætti síðan við tveimur börnum árin 1988 og 1990 og tvö til viðbótar síðar. Lífið þróaðist því betur en ég hafði reiknað með fljótlega eftir slysið,“ segir Gísli. Hann hóf störf hjá Össuri árið 1994. ,,Ég var þar í ýmsum störfum en fyrirtækið var þá frekar fámennt og miklu minna en í dag.

Ég var að sendast og ýmislegt fleira. Ég hóf síðan störf á renniverkstæði fyrirtækisins. Ég var þá fyrsti starfsmaðurinn þar en í dag er fyrirtækið með eitt fullkomnasta renniverkstæði í Evrópu. Árið 2006 fór fyrirtækið að þróa og framleiða gervigreindarhné og ég fór að vinna við það. Þá sá ég mér leik á borði að það væri möguleiki á að fara aftur á mótorhjól. Ég lét breyta stúfnum á mér, lét stytta hann og laga svo betra væri að nota þetta nýja hné. Þá fór ég að hjóla aftur. Ég fer samt rólegra en ég gerði á unglinsárunum,“ segir hann og brosir.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.  

Stikkorð: Pontiac