*

Sport & peningar 17. janúar 2021

Færeyingur ríkasta e-sport stjarnan

Rafíþróttamaðurinn sem notar nafnið NOtail hefur unnið andvirði nærri milljarðs króna við að spila tölvuleikinn Dota 2.

Ríkasti rafíþróttamaður, eða e-sport stjarna, heims er færeyingurinn Johan Sundstein, en hann er betur þekktur undir notendanafni sínu N0tail í tölvuleikjasamfélaginu.

Sundstein, sem er 27 ára gamall, hefur unnið sér inn samanlagt 7,4 milljónir Bandaríkjadala, eða andvirði um 955 milljóna íslenskra króna miðað við núverandi gengi, í vinninga.

Lið sem hann leiðir, OG, er það eina sem hefur unnið heimsmeistaramótið í tölvuleiknum Dota 2, The International, tvö ár í röð, það er 2018 og 2019, en engin keppni var í ár vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Foreldrar Sundstein eru Færeyingar en hann er fæddur og alinn upp í Danmörku. Langaafi hans er fyrrverandi forsætisráðherra Færeyja, Jógvan Sundstein að því er segir á vefsíðunni local.fo.

Sundstein hefur meðal annars notað peningana til að kaupa sér 17 herbergja höll í Lisbon í Portúgal, sem hann sagði í viðtali við BBC að þyrfti miklar endurbætur á, sem hefðu tafist vegna heimsfaraldursins.

Stikkorð: Dota 2  • rafíþróttir  • Johan Sundstein  • N0tail  • e-sport