*

Tíska og hönnun 11. maí 2016

Fágaður stíll reiðhjólamannsins

Reiðhjólaverzlunin Berlin er gullmoli sem vert er að heimsækja í miðbæjaröltinu.

Eydís Eyland

Í Reiðhjólaverzluninni Berlin er að finna falleg, gamaldags, klassísk reiðhjól ásamt fatnaði og öðrum fylgihlutum. Einnig geta gestir gætt  sér á gómsætum samlokum og fengið sér kaffi á meðan heimsókninni stendur.

Alexander Schepsky er eigandi Reiðhjólaverzlunarinnar Berlin og hefur búið á Íslandi í meira en sautján ár. Hann hjólar mikið og hefur alltaf notað hjól sem farartæki. Eftir vinnu hitti Alexander í gömlu verbúðunum við höfnina þar sem hann opnaði nýlega stærri og glæsilegri reiðhjólaverslun.

Hvenær var búðin opnuð og hvaðan dregur hún nafn sitt?

„Búðin opnaði 2012 og var á Snorrabraut. Á þeim tíma er að skella á hjólabylting á Íslandi, Reykjavíkurborg farin að gera upp hjólastígakerfið í bænum og styrkja hjólamenninguna mikið þannig að ég ákveð að opna verslun. Ég vildi ekki reka hefðbundna reiðhjólaverslun heldur líka lífsstílsverslun þ.e.a.s bjóða fín föt sem hægt er að hjóla í en ekki bara spandex. Nafnið Reið- hjólaverzlunin Berlin kemur til því við erum að hugsa til Berlínarborgar á árunum 1920-1930, þann stíl og stemningu sem var þá í gangi og svo er Berlín flott og kúl borg í dag. Sjálfur er ég frá litlum bæ nálegt Hollandi. Berlín er hipp og kúl með margar flottar verslanir.“

„Reksturinn gengur svakalega vel. Ég er eiginlega hissa þar sem þetta var fyrst áhugamál og er ég kominn í fullt starf við þetta, þannig að það gengur virkilega vel. Fólk er farið að hjóla meira og um leið og snjórinn fór núna þá seldust upp öll hjól hjá mér í búðinni. Fólk er farið að nota meira hjól hérna í miðbænum. Við vorum svo að bæta við okkur kaffisölu og erum að selja samlokur í hádeginu þannig að við erum komin með lítið kaffihús inni í versluninni. Ferðamennirnir hafa kíkt inn og fengið sér léttan hádegisverð, samloku og kaffi og finnst þeim hugmyndin æðisleg. Okkur vantar þó fleiri starfsmenn, allavega í sumar til að sjá um veitingasöluna,“ segir Alexander.

Nánar er rætt við Alexander í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu.