*

Bílar 1. janúar 2021

Fagurkerar fram í fingurgóma

Ítalski bílaframleiðandinn Alfa Romeo er þekktur fyrir fallega hönnun. Hann fagnar 110 ára afmæli í ár.

Róbert Róbertsson

Saga Alfa Romeo nær aftur til ársins 1910. Tíu athafnamenn í Mílanó stofnuðu þá fyrirtækið Anonima Lombarda Fabbrica Automobili sem á íslensku myndi útleggjast sem Bílaverksmiðjan í Langbarðalandi almenningshlutafélag. Styttingin á því, ALFA, var svo notað.

Athafnamennirnir keyptu bílaverksmiðju í Portello skammt frá Mílanó. Verksmiðjan hafði verið í eigu ítalsks dótturfélags franska bílaframleiðandans Darracq, en frönsku bílarnir höfðuðu ekki til ítalskra bílakaupenda.

Fyrsti bíllinn var framleiddur árið 1910 og fékk nafnið 24 HP. Hann var hannaður af Giuseppe Merosi. ALFA lagði strax áherslu á akstursíþróttir og vann strax titla á brautunum. Ökuþórarnir Franchini og Ronzoni kepptu á 24 HP bílum og náðu frábærum árangri í Targa Florio kappakstrinum 1911.

Handgerðir lúxusbílar og sportbílar
Iðnjöfurinn Nicola Romeo frá Napólí tók við stjórnartaumunum í fyrirtækinu árið 1915 og styrkti stöðu fyrirtækisins enn frekar. Handgerðir lúxusbílar og sportbílar voru aðalsmerki Alfa Romeo. Nafni bílaframleiðandans var breytt í Alfa Romeo árið 1920 í höfuðið á Nicola Romeo.

Bílar framleiðandans voru þá þegar farnir að vekja athygli á heimamarkaði og urðu fljótlega vinsælir meðal efnaðs fólks og ekki síst fyrir þær sakir að þeir þóttu sportlegir og náðu góðum árangri í akstursíþróttum. Torpedo 20-30HP var fyrsti bíllinn með nýja nafninu Alfa Romeo. Alfa Ps keppnisbíllinn vann heimsmeistaramótið í kappakstri árið 1925. Keppnisdeild fyrirtækisins sem nefnd var Alfa Corse átti mikinn heiður af þessum frábæra árangri.

Romeo yfirgaf fyrirtækið árið 1928 eftir fjárhagsvandræði sem að stórum hluta mátti rekja til hruns Banca Italiana di Sconto nokkrum árum áður. Alfa Corse keppnisdeildin var lögð niður árið 1930. Við rekstrinum tók keppnislið Scuderia Ferrari undir stjórn Enzo Ferrari sem notaðist eingöngu við bíla frá Alfa Romeo.

Ríkið tók yfir rekstur Alfa Romeo en Alfa Romeo átti áfram góðu gengi að fagna á akstursbrautunum næstu árin. Alfa Romeo sigraði í fyrstu Formúlu 1 keppninni með heimsmeistaranum Giuseppe Farina og náði titlinum í Tipo 158.

Alfa Romeo vann síðan aftur árið 1951 með ökuþórinn Juan Manuel Fangio í Tipo 159 sem var búinn 1,5 lítra 425 hestafla vél með forþjöppu. Bíllinn komst á 300 km/klst hraða. Alfa Romeo hafði á þessum tíma alla bestu ökuþórana í bílum sínum og vann iðulega glæsilega sigra í stóru keppnunum Targa Florio, Mille Miglia og Le Mans.

Fjöldaframleiðsla á minni fjölskyldubílum
Alfa Romeo hætti tímabundið að framleiða ölfuga sportbíla og flotta lúxusbíla í byrjun sjötta áratugarins og í staðinn tók við fjöldaframleiðsla á minni fólksbílum eins og 1900 bílnum sem varð mjög vinsæll. Alfa Romeo dró sig úr Formúlu 1 árið 1952.

Sportbíllinn Alfa Romeo Spider kom síðan fram á sjónarsviðið í byrjun sjöunda áratugarins. Hann var fyrst kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Tórínó árið 1961. Pinin Farina hafði hannað útlitið og almenningur tók bílnum mjög vel. Mikil eftirspurn var eftir bílnum og var Spider bíllinn framleiddur allt til ársins 1993, alls fjórar kynslóðir.

Vélin var fjögurra strokka og skilaði 109 hestöflum. Sportbíllinn var léttur og meðfærilegur og vóg ekki nema 996 kíló. Hægt var að fá bílinn með 1,4 lítra vél og árið 1967 kom hann á markað sem Spider Veloce og þá var komin 118 hestafla vél í hann. Alfa Romeo Disco Volante var annar undurfagur sportbíll sem fékk mikla athygli.

Á sjöunda og áttunda áratugunum var Alfa Romeo aftur þekkt fyrir að framleiða fagra sportbíla sem eiga ennþá við um ímynd fyrirtækisins. Á áttunda áratugnum var ný og stór verksmiðja reist í Pomigliano d›Arco nálægt Napólí, til að smíða nýja Alfasud-bílinn.

Ný reynsluakstursbraut var búin til um svipað leyti við Balocco á Piemonte svæðinu. Alfa Romeo Alfasun var fjölskyldubíll í meðalstærð sem framleiddur var árin 1971 til 1989. Fyrstu bílarnir voru 4 dyra en svo birtist 2 dyra sportleg TI útfærsla, árið 1973 sem vakti mikla athygli.

Alfa Romeo undir eignarhaldi Fiat
Árið 1986 tók Fiat yfir Alfa Romeo og hefur bílamerkið síðan þá verið lúxusmerkið innan samsteypunnar. Svipað og Audi undir Volkswagen samsteypunni. Alfa Romeo kom fram með 156 og 159 bílanna sem báðir voru allvinsælir og vöktu athygli fyrir flotta hönnun.

Undanfarin misseri hafa sportbíllinn 4C, fjölskyldubílarnir Giulia og Giulietta sem og sportjeppinn Stelvio komið af færibandinu hjá Fiat verksmiðjunum í Tórínó sem framleiða nú Alfa Romeo. Allir eiga þeir sameiginlegt að vera sportlegir og fallega hannaðir sem er ímynd merkisins. Alfa Romeo bílarnir vekja ávallt athygli bílaáhugamanna um allan heim.

Stelvio, fyrsti sportjeppi Alfa Romeo, hefur skráð sig á spjöld sögunnar, en hann státar af hraðameti fjöldaframleiddra jeppa á Nürburgring F1 keppnisbrautinni í Þýskalandi. Stelvio er í boði með 210 hestafla díselvél eða 280 hestafla bensínvél og auk þess með hinni mögnuðu Quadrifoglio útfærslu sem skilar 510 hestöflum.

Giulia fékk Gullna stýrið fyrir að vera fallegasti bíllinn þegar hann kom á markað 2016. Giulia hefur fengið fjölda verðlauna, ekki bara fyrir útlitshönnun, heldur einnig fyrir góða aksturseiginleika. Grunnútgáfa Giulia er með 2,0 lítra 150 hestafla bensínvél. Giulia í Veloce útfærslu er fjórhjóladrifinn með 280 hestafla bensínvél. Giulia er einnig fáanleg með 210 hestafla dísilvél og fjórhjóladrifi. Líkt og Stelvio er Giulia fáanleg í Quadirfoglio fjórhjóladrifinni útfærslu með 510 hestafla bensínvél.

Alfa Romeo er um þessar mundir að endurskipuleggja sig í þá veru að færa áhersluna frá sportbílum meira yfir á það sem er vinsælast í dag, sportjeppa og jepplinga. Alfa Romeo hefur því lagt áform um framleiðslu 8C ofurbílsins og GTV sportbílsins á hilluna og hyggst framleiða tvær gerðir jepplinga í staðinn. Annar þeirra er Tonale, sportjeppi í millistærð og var kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Genf í fyrravor, en auk hans er von á nýjum jepplingi sem verður aðeins minni.

Snákurinn og krossinn
Merki Alfa Romeo er virðulegt og dálítið sérstakt þegar kemur að bílaframleiðanda. Það er tvískipt eins og skjaldarmerki í laginu og skartar tveimur táknum Mílanóborgar. Annars vegar snák Visconti ættarinnar, sem réði miklu í borginni á miðöldum, og hins vegar rauðum fána á hvítum fleti sem er tákn krossfararriddaranna. Knattspyrnustórveldið AC Milan notar þetta merki einnig.

Sagan segir að hugmyndin að merkinu hafi skotið upp í kolli hönnuðarins Romano Cattaneo þegar hann var í Piazza Castello í miðborg Mílanó og beið þar eftir sporvagni númer 14. Alfa Corse, keppnisdeild Alfa Romeo, lét gera sérmerki með gylltum lávarðasveig í kjölfar sigursins í heimsmeistaramótinu 1925.

Alfa Romeo hefur í seinni tíð átt misgóðu gengi að fagna og salan verið mismikil eftir markaðssvæðum. Stundum hefur verið kvartað yfir því að bílarnir séu ekki nógu áreiðanlegir. En enginn getur tekið af ítalska framleiðandanum að hann framleiðir sannkallaða fagurkera á fjórum hjólum. ,,Í hvert sinn sem ég sé Alfa Romeo tek ég ofan hattinn,“ sagði bílafrömuðurinn Henry Ford.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.