*

Menning & listir 13. febrúar 2013

Fagurt fljóð og typpakeppni tengdafeðra

Leikritið Ormstunga er framúrskarandi matreiðsla á menningararfinum. Viðskiptablaðið fór í leikhús.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Þau Benedikt Erlingsson og Halldóra Geirharðsdóttir dustuðu rykið af sér eftir 13 ára hlé á föstudag og komu sterk inn sem þau Gunnlaugur Ormstunga, Helga Þorsteinsdóttir, Illugi Svarti Hallkellsson , John Music og Víkingur Víkingsson og 19 aðrar persónur í leikritinu um ástir Gunnlaugs Illugasonar og Helgu í leikritinu Ormstungu. Leikritið frumsýndu þau í Skemmtihúsinu við Laufásveg í Reykjavík í ágúst árið 1996, léku þar viðstöðulítið þar til þau tóku sér pásu í kringum aldamótin síðustu. Þar til nú að þau fóru að sýna verkið aftur - í þetta sinn í Borgarleikhúsinu.

Sjö hundruð ára ástarsaga

Í stuttu máli er sagan um Gunnlaug Ormstungu með þekktari Íslendingasögum enda lesin í mörgum skólum. Þetta er klassísk ástarsaga um tvo karlmenn og konu, sem gerist í kringum kristnitöku. Gunnlaugur dvelur í konungsríkjum ytra lengur en hann ætlar sér og missir æskuást sína í hendur keppinautar. Inn í söguna blandast frábær krydd; þekktir víkingakappar, mökkur af gríni, íslenskt fyllerí á Þingvöllum þjóðveldistíðar og neðanbeltishúmor af bestu sort. Einfaldasta grínið, typpakeppni víkinga, feðra þeirra Gunnlaugs og Helgu, varð í höndum Benedikts að eftirminnilegasta skopi sem ég hef lengi séð.

Fyrir sýninguna las ég einhvers staðar að þau Benedikt og Halldóra hafi uppfært grínið; búið sé að eyða því út sem þótti fyndið á sínum tíma en líklegt sé að falla í ófrjóan svörð í dag. Af þessum sökum hafði ég áhyggjur af því að nýja grínið gæti orðið af ættlegg Spaugstofunnar. Þegar á hólminn var komið reyndist svo ekki vera. Þvert á móti voru tilvísanir til samtímans felldar svo listavel inn í verkið að engin rof urðu á framvindunni.

Samleikur þeirra Benedikts og Halldóru er frábær hvort sem þau eru að túlka húmor eða sárasta harm enda hafa þau pússað sig saman í fjölmörgum sambærilegum verkum í gegnum árin. Þar bera hæst Sjeikspír eins og hann leggur sig, Mr. Skallagrímsson og Jesús litli, sem hefur gengið fyrir fullu húsi nær endalaust.

En svo er það sjálf sagan, þetta sjö hundruð ára gamla drama. Hún var vægast sagt framúrskarandi í höndum leikaranna sem fóru með heila Íslendingasögu og alla útúrdúra henni tengdri án nokkurra leikmuna, hvorki sverða né hesta, sem þó leika geysistór hlutverk í uppsetningu Ormstungu.

Frábær matreiðsla á menningararfinum

Á sýningunni á móti mér sat fyrrverandi háskólakennari minn í Íslandssögu, reynslubolti í víkingatímanum með fjölmargar kennslubækur með nafni sínu á kilinum. Hann virtist yfirleitt ýmist dotta eða í djúpum þönkum en brosti öðru hverju út í eitt en minnti á stundum á matarrýni frá Michelin skemmta sér yfir því hvernig menningararfurinn var reiddur fram á borð nýrrar kynslóðar áhorfenda.

Þegar ég stóð fyrir utan Borgarleikhúsið, saddur í sinni og enn með eftirköst hláturkrampa í magavöðvum eftir að hafa borðað yfir mig af Íslendingasögum en samt með löngun í ábót velti ég því fyrir mér hvað háskólakennarinn myndi gefa henni margar stjörnur. Ég gef sýningunni fullt hús.