*

Tíska og hönnun 12. maí 2013

Fallegt hús á Nantucket

Á eyju þar sem öll húsin verða að vera í stíl og bílaumferð er takmörkuð, er glæsilegt hús til sölu.

Stórfenglegt hús er til sölu á eyjunni Nantucket í Bandaríkjunum. Húsið var byggt 1920 en 2011 var það algjörlega gert upp. Húsinu fylgir fallegt gestahús. Úr aðalhúsinu er magnað útsýni yfir höfnina í Nantucket og bæinn.

Í húsinu eru sex svefnherbergi, tíu baðherbergi, tveir arnar, granítborð í eldhúsinu, öflugt öryggiskerfi, líkamsræktarherbergi, bíósalur og vínkjallari. Lóðin er falleg og hægt er að slaka á úti á verönd og svamla um í sundlauginni þegar sólin skín.

Húsið kostar tæpa 1,8 milljarða króna en nánari upplýsingar má finna hér.

Eyjan Nantucket er vinsæll sumarleyfisstaður. Gaman er að hjóla hringinn í kringum eyjuna en bílaumferð er takmörkuð. Húsin á eyjunni eru sérstök en þau verða öll að vera í stíl. 

Nantucket var einn af aðalhvalveiðistöðum Bandaríkjanna á 18. og 19. öld. Þaðan veiddu þeir geysimikið af hvaltegundum sem fengu viðurnefnið Right Whale. Var það vegna þess að þessir hvalir sökkva ekki þegar búið var að drepa þá svo auðvelt var að draga þá í land. Meðal þeirra hvaltegunda sem falla undir þetta óformlega heiti eru sléttbakur og norðhvalur. 

Nantucket eyja er við hlið Martha´s Vineyard en sú eyja er stærri og nær landi en Nantucket. Jackie Kennedy átti hús á Martha´s Vineyard og bjó þar hluta úr ári eftir dauða JFK. Sonur hennar, JFK yngri, fórst á leið til Martha´s Vineyard þegar flugvél hans hrapaði í hafið í vonskuveðri. 

Og að lokum, vísa um Nantucket fyrir þá allra hressustu: 

There once was a man from Nantucket

Who kept all his cash in a bucket.

But his daughter, named Nan  

Ran away with a man  

And as for the bucket , Nantucket.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Bandaríkin  • Fasteignir  • Bandaríkin  • Nantucket