*

Menning & listir 1. nóvember 2019

Fann 3,3 milljarða málverk í eldhúsinu

Málverk frá endurreisnartímabilinu fannst í frönsku eldhúsi og var nýlega selt á 24 milljónir evra á uppboði.

Lítið málverk frá fyrri hluta endurreisnartímabilinu eftir málarann Cimabue frá Flórens var nýlega selt á uppboði fyrir 24 milljónir evra, jafngildi 3,3 milljarða króna. Verkið er þar með dýrasta málverk miðalda sem nokkurn tímann hefur selst. 

Breska dagblaðið Guardian fjallar um verkið sem fannst síðasta sumar í eldhúsi franskrar konu á níræðisaldri í litlu þorpi norður af Parísar.  Verkið hafði hangið í eldhúsi konunnar um árabil án þess að vekja athygli fjölskyldunnar eða gesta. Mikil mildi þykir að verkið sé í góðu ásigkomulagi þar sem það hékk beint fyrir ofan eldavélarhellu konunnar í áratugi. 

Síðastliðinn júní hafði konan selt húsið og var undirbúa sig væntanlega búferlaflutninga þegar hún hefur samband við sérfræðing frá uppboðshúsinu Senlis til þess að leggja mat á hvort koma mætti eitthvað af húsgögnunum í verð.  

„Ég fékk viku til þess að gera verðmat á innhúsmunum og tæma húsið,“ sagði sérfræðingurinn, Philomène Wolf, í viðtali við blaðið Le Parisien. „Ég þurfti að hliðra ýmsu til í vinnunni til þess að hafa tíma til að sinna þessu því annars átti allt að fara á ruslahaugana. 

„Ég kom strax auga á verkið þegar ég mætti á staðin. Mér datt strax í hug að um væri að ræða verk eftir ítölsku frumstefnumálarana (e. Italian primitivism). En það hvarflaði ekki að mér að verkið væri eftir Cimabue.“

Cimabue, einnig  þekktur undir nafninu Cenni di Pepo, var einn helsti og elsti frumkvöðull ítölsku endurreisnarinnar. Aðeins ellefu verk, öll máluð á tré, hafa varðveist eftir hann og þau hanga öll á áberandi stöðum í mörgum af helstu söfnum heims, eins og National Gallery í London og Frick Collection í New York.  

Rannsóknir á vegum Turquin stofnunarinnar í París leiddu í ljós að verkið var frá árin 1280 og er hluti af röð átta verka sem Cimabue málaði af píslargöngu Krists.

Þögn sló á uppboðssalinn þegar verkið var afhjúpað, samkvæmt lýsingu Guardian, en 800 sérvaldir gestir voru mættir til að berja það augum áður en uppboðið hófst. „Það verður aldrei annað verk eftir Cimabue boðið upp,“ fullyrti uppboðshaldarinn áður en tilboðunum tók að rigna inn. Það var loks slegið á 24 milljónir evra eða 3,3 milljarða króna. Bæði eigandinn og kaupandinn hafa óskað nafnleyndar en ganga vonandi sátt frá viðskiptunum. 

 

Stikkorð: uppboð  • Málverk  • Cimbue