*

Veiði 1. júlí 2016

Fantagóð stórlaxaveiði

Stangaveiðitímabilið hefur byrjað vel. Hlutfall stórlaxa er mjög hátt en óvissa ríkir um það hvort smálaxinn veiðist í miklu mæli.

Trausti Hafliðason

Veiðin í Blöndu fram að þessu gefur nokkuð skýra mynd af því sem er að gerast í ám víða um land. Fyrir viku síðan voru 535 laxar komnir á land en á sama tíma í fyrra voru rétt um 100 laxar komnir á land. Hafa ber í huga að í fyrra var sett veiðimet í Blöndu þegar ríflega 4.800 laxar veiddust í ánni. Í Þverá og Kjarrá sem og Norðurá er veiðin tvöfalt betri nú en á sama tíma í fyrra. „Þetta kemur ánægjulega á óvart,“ segir Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun. „Við áttum von á því að veiðin yrði góð í byrjun sumars en kannski ekki svona góð. Það voraði mjög snemma í ár þannig að það hefur líklega haft áhrif á það hvað laxarnir hafa verið snemma á ferðinni núna.“

Hátt hlutfall stórlaxa

Í fyrra voru gríðarlega sterkar smálaxagöngur og það gaf ákveðnar vísbendingar um að töluvert yrði af stórlaxi nú í sumar. Er það vegna þess að tengsl eru á milli fjölda af eins árs laxi sem skilar sér úr sjó og upp laxveiðiár og svo tveggja ára laxi árið eftir, því um er ræða sama gönguseiðaárganginn. Með öðrum orðum þá fór stórlaxinn, sem nú er að veiðast, út í sjó vorið 2014 eða á sama tíma og smálaxinn sem var að veiðast í fyrra.

Stórlaxar skila sér mun fyrr upp í íslenskar laxveiðiár en smálaxinn og því er ekki óeðlilegt að hlutfall stórlaxa af heildarveiðinni í byrjun veiðitímabilsins sé hátt. Hlutfallið hefur hins vegar verið mjög hátt í ár og þá ekki síst með tilliti til þess hversu mikil og góð veiði hefur verið. Víða er hlutfall stórlaxa núna vel yfir 50%.

Guðni segir að sem dæmi um góða stórlaxagengd þá séu nú þegar komnir fleiri stórlaxar í gegnum teljarann í Langá núna en allt sumarið 2014. Hafa verður í huga að þótt byrjun laxveiðitímabilsins nú hafi verið ævintýralega góð þá þarf það ekki endilega að þýða að laxveiðin í ár verði sambærileg við það sem hún var í fyrra. Í fyrra veiddust 71.708 laxar sem þýðir að veiðin var sú fjórða besta frá því að mælingar hófust árið 1974. Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að byrja að fagna of snemma er að uppistað- an í laxveiðinni hér á landi er smálax. Sem dæmi þá veiddust í fyrra tæplega 61.600 smálaxar sem þýðir að hlutfall smálaxa af heildarveiðinni var 86%.

Nánar er fjallað um málið í í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Laxveiði