*

Hitt og þetta 1. janúar 2020

Fara í iðnskóla frá 19. öld

Einn af hverjum þremur komast í heimavistarskóla í Bandaríkjunum sem kennir fátækum iðngreinar og framkomu.

Fjallað er um aldagamlan iðnskóla í Bandaríkjunum í áhugaverðri grein í tímaritinu City Journal, en umfjöllunin snertir á ýmsum mikilvægum málum í menntakerfum vesturlanda sem mikið eru í umræðunni bæði hér heima sem og í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þar á meðal mikinn kostnað við skólagjöld og skuldir sem safnast upp þeirra vegna, sem og áhugaleysi og upplausn meðal ungra manna sérstaklega, og sjá höfundar í umgjörð skólans ákveðið dæmi um mögulegt svar við þessari þróun.

„Sérhver sem hefur áhuga á að bæta líf lægri millistéttar ættu að kynna sér gildi og nám skólans,“ segir meðal annars í greininni þó þeir taki það fram að erfitt verður að herma árangur hans að fullu leiti, m.a. vegna þeirrar miklu hefðar sem hann byggir á.

Jafnframt fjallar hljóðvarp tengt tímaritinu um greinina, undir yfirskriftinni Leið eins iðnskóla að árangri, eða á ensku: One Trade School’s Path to Success. Meðal þess sem fjallað er um og gæti verið áhugavert fyrir íslenska lesendur sérstaklega er hvort svona skóli geti dregið úr þeim stimpli sem virðist í huga sumra fylgja því að fara í iðnskóla frekar en bóknám, sem aftur veldur því að meðalaldur iðnnema til að mynda hér á landi er mun hærri en í hefðbundnum framhaldsskólum.

Skólinn þjónar sérstaklega drengjum frá fátækum og erfiðum aðstæðum en öfugt við rándýra háskóla Bandaríkjanna kostar þá heppnu sem komast inn ekkert. Hann var stofnaður seint á 19. öld til að hjálpa iðjulausum drengjum úr mikilli fátækt en þeir voru kallaðir á sínum tíma hornstrákar eða „Corner boys“ á ensku og voru þá algengir á götum Pittsburg í Pensylvaníuríki.

Lengra nám til að byggja upp karakter

Öfugt við flesta iðnskóla í Bandaríkjunum sem eru í tvö ár og hefjast eftir high scool, eða á sama tíma og aðrir nemendur fara í háskóla, eða það sem Bandaríkjamenn kalla College og eru fyrstu ár háskólans, er Williams College of the Trades þriggja ára nám.

Er það gert til að nemendurnir geti lært framkomu og aga, en mikið er lagt upp úr því í skólanum að búa til umgjörð sem kennir nemendunum sjálfsöryggi í samskiptum, koma fram og tala opinberlega og annað sem skiptir máli í eigin rekstri sem flestir þeirra fara í að lokum.

Skólinn sem starfað hefur frá árinu 1888 er staðsettur á einstaklega fallegum stað í sveitaumhverfi, en um er að ræða heimavistarskóla með mjög agaðri umgjörð um svefn- og vökutíma í sama stíl og var frá upphafi. Nemendurnir eru á aldrinum 19 til 22 ára, allir karlmenn, þó skólastjórnendurnir dreymir um að geta tvöfaldað nemendafjöldann og geta stofnað systurskóla fyrir kvenfólk. Þrátt fyrir drauma um stækkun komast færri en einn af hverjum þremur sem sækja um í skólann.

Verða of vel launaðir til að börn þeirra komist í skólann

Einblínt er á námskeið í fjórum grunngreinum, en mikil eftirspurn er á vinnumarkaði í Bandaríkjunum eftir fólki með þekkingu á greinunum og eru flestir nemendurnir sem úr skólanum koma það vel launaðir að börn þeirra uppfylla ekki skilyrðin sem þarf til að komast sjálf í skólann.

Þannig eru nemendurnir úr skólanum mjög eftirsóttir til starfa í fyrirtækjum í byggingariðnaði, orkuvinnslu og jafnvel af flugvélaframleiðendum eins og Boeing, og eru byrjunarlaunin sem þeim bjóðast oft mun hærri en nemendur úr hefðbundnum bóknámsskólum fá.

Hér má lesa greinina i heild sinni og hér má hlusta á hlaðvarpsviðtal við höfundinn sem fékk einstakan aðgang að skólanum, sem gæti mögulega verið innblástur fyrir Íslendinga enda oft talað um að auka veg og virðingu iðnnáms hér á landi.

Stikkorð: Bandaríkin  • Bandaríkin  • Menntun  • iðnnám