*

Ferðalög & útivist 28. maí 2013

Farðu í skíðaferð til Norður-Kóreu

Framkvæmdir eru hafnar í Norður-Kóreu en þar mun rísa skíðasvæði innan tíðar. Skiptar skoðanir eru á framkvæmdunum.

Yfirvöld í Norður-Kóreu byggja skíðahótel og hanna svæði í kring sem þau segja að verði fyrsta flokks skíðasvæði. Skíðaparadísin verður við rætur Masikhæðar í Wonsan en hún samanstendur af fjölmörgum skíðabrautum og einu hóteli samkvæmt ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu.

Svæðið er í Kangwon héraði og er Masikhæðin 768 metra há. Svæðið er snjóþungt og vanalega snjóar duglega frá snemma í nóvember og þangað til í mars.

Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu er sáttur við framkvæmdirnar og hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og heimsótti herinn sem sér um framkvæmdirnar. Kim, sem lærði í Sviss, er áhugamaður um skíðasvæði og leggur áherslu á að hafa ekki bara veitingastaði á svæðinu heldur einnig stöðvar til að sinna þeim sem slasast á leiðinni niður brekkurnar. Einnig vill hann koma upp eftirlitskerfi sem getur gert starfsfólki svæðisins kleift að fylgjast með skíðafólkinu á öllum stöðum á svæðinu í þeim tilgangi að bregðast hratt og örugglega við slysum. 

Fyrir þau sem þekkja til í Norður-Kóreu þá verður bein leið að skíðasvæðinu eftir Pyongyang-Wonsan hraðbrautinni. 

Bent hefur verið á að það skjóti skökku við að eyða fjármunum í byggingu skíðasvæðis á meðan þjóðin sveltur. Framkvæmdirnar þykja þó benda til þess að Kim Jong Un vilji styrkja ímynd sína á alþjóðavettvangi sem leiðtogi sem vill gera eitthvað skemmtilegt fyrir þjóð sína. En um leið er einnig bent á að mjög ólíklegt þykir að svæðið muni nokkurn tíma verða notað í annað en að þjálfa herinn. CNN segir frá málinu á fréttasíðu sinni. 

Stikkorð: Kim Jong Un  • Skíðasvæði  • Norður-Kórea  • skíði