*

Menning & listir 25. nóvember 2018

„Fátt eðlilegt við þetta”

Bragi Valdimar Skúlason segir Baggalút ætla að halda jólatónleika fram eftir áttræðisaldrinum eða þar til jólin detta úr tísku.

Sindri Freysson

Stöðugt fleiri tónleikar eru haldnir ár hvert og áætluð velta á þessum markaði hleypur á hundruðum milljóna hið minnsta og teygir sig trúlega frekar rösklega yfir milljarðinn; miðasölutekjur vegna tónleikaraðar Baggalúts einnar voru á annað hundrað milljón króna í fyrra. Vinsældir þeirra hafa vaxið ört frá því að Baggalútsmenn dönsuðu fyrst í kringum jólatréð saman fyrir tólf árum og á aðventunni í ár halda þeir átján tónleika sem eru að mestu eða öllu uppseldir. Einn helsti forsprakki Baggalúts, Bragi Valdimar Skúlason, segir að gríðarlegar vinsældir jólatónleika Baggalúts hafi ekki breytt viðhorfi sínu til jólanna sérstaklega mikið, en þessi lota eyðileggi vitanlega aðventuna gjörsamlega.

Að því sögðu er þetta alltaf jafn hrikalega gaman og við erum óskaplega þakklátir fyrir að geta gert þetta og að allur þessi fjöldi mæti ár eftir ár. Það að halda til í Háskólabíói allar helgar fram að jólum er svo orðinn partur af desember. Þar komum við okkur fyrir með vistir og velgjörðir, ekki ólíkt því að draga kost í skip og leggja svo á miðin. Þetta er svona okkar jólatogari. Nema hvað við veiðum reyndar á línu, laglínu,“ segir Bragi Valdimar.

Bragi, er þetta tónleikahald ykkar eilífðarvél og kannski leitt til að upphaflega konsept Baggalúts glatast – eða kannski bara þróast í eðlilega átt?

„Það er ósköp fátt eðlilegt við þetta allt saman,“ segir Bragi „Þetta byrjaði allt með því að við vorum að gera grín að því að taka blásaklaus erlend lög og breyta í jólalög uppi á Íslandi. Þetta hefur auðvitað gersamlega snúist í höndunum á okkur. Ég held nú samt að meðan við höfum gaman af þessu og höfum húmor fyrir því sem við erum að gera þá skilar þetta sér. Við viljum fyrst og fremst skemmta fólki og við leggjum mjög mikið í framkvæmdina á hverju ári. Reynum helst að ögra okkur sjálfum með einhverjum undarlegheitum. Í fyrra fengum við til að mynda japanska blöðrulistamenn til að reisa risavaxinn blöðruvegg á sviðinu — sem var virkilega hressandi. Fyrir alla nema þá sem haldnir eru glóbófóbíu auðvitað. Konseptin gerast nú varla Baggalútslegri en það. Annars treystum við á að við náum að gera þetta fram eitthvað fram eftir áttræðisaldrinum, eða þar til jól detta almennt úr tísku.Hvort sem kemur á undan.“