*

Sport & peningar 16. september 2021

Federer malar gull á skóm

Hlutabréfaverð skóframleiðandans On, sem tennisstjarnan á hlut í, hækkaði um nærri 50% á fyrsta degi félagsins á markaði.

Gengi hlutabréfa skóframleiðandans On Holding AG, sem tennisstjarnan Roger Federer hefur m.a. fjárfest í, hækkaði um ríflega 47% á fyrsta viðskiptadegi félagsins í Kauphöllinni í New York. Í kjölfar hækkunarinnar var fyrirtækið metið á 11,35 milljarða dala. Reuters greinir frá.

Fyrirtækið seldi 31,1 milljónir hluta á genginu 24 dalir á hlut í hlutafjárútboði fyrir skráningu á markað og safnaði þannig 764,4 milljón dala. Við lokun markaða vestanhafs í gær stóð gengið í 35 dölum á hlut.

Hlutafjárútboðið hefði vart getað verið betur tímasett þar sem að íþróttafatnaður, þá sérstaklega skór, hafa rokið úr hillum verslana á heimsvísu. Lokanir á líkamsræktarstöðvum urðu til þess að margir ákváðu að byrja að stunda útihlaup til að halda sér við. 

Tennisskór og 100% endurnýjanlegir hlaupaskór

On var stofnað árið 2010 af hlaupaáhugamönnunum Olivier Bernhard, David Allemann og Caspar Coppetti. Árið 2019 bættist fyrrnefndur Federer við hlutahafahópinn, er hann keypti sig inn í félagið fyrir ótilgreinda upphæð.

Fyrr á þessu ári hóf Federer svo í samstarfi við On að framleiða sérhannaða tennisskó sem fengu nafnið Roger Pro. Þar að auki framleiðir On 100% endurnýjanlega hlaupaskó, sem fengu nafnið Cyclon, sem framleiddir eru úr fræjum kristpálma (e. castor bean). Skóna er aðeins hægt að nálgast í gegnum áskriftarþjónustu og til að geta fengið nýtt par þegar það gamla er úr sér gengið þarf að skila því gamla til þess að fá nýtt par sent.

Tímasetning útboðsins er ekki síður heppileg á tímum þar sem mikil eftirspurn er á heimsvísu og á meðal fjárfesta eftir sjálfbærum vörum.

Stikkorð: On  • Roger Federer