*

Bílar 14. október 2017

Feikigóð fimma

Ný kynslóð af BMW 5-línunni getur lagt sjálfvirkt í stæði og er hann vel búinn lúxus og þægindum.

Ný kynslóð af BMW 5-línunni var kynnt í byrjun árs og er óhætt að segja að þessi nýja fimma mæti öflug til leiks. BMW 5 hefur sankað að sér verðlaunum víða og var m.a. valinn viðskiptabíll ársins hjá Auto Express.

Þetta er sjöunda kynslóð BMW 5-línunnar en hún leit fyrst dagsins ljós árið 1972. Derrick lögregluforingi og félagi hans Harry Klein óku oft BMW fimmu í hinum rómuðu þýsku lögregluþáttum enda gerðust þeir á heimaslóðum lúxusbílaframleiðandans í München. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

Nýja 5-línan er mjög fallega hönnuð að innan sem utan. Útlitið er voldugt og kraftmikið. Hönnunin er nokkuð breytt frá fyrri kynslóð og þá sérstaklega framendinn sem og innréttingin. BMW er samt ekkert að breyta bílum sínum of mikið enda þykir hönnun bílaframleiðandans falleg og klassísk.

Lúxus og þægindi í innanrýminu

Innanrýmið er vel hannað og það er mikið lagt í það. Það er vandað til verka í þessum bíl. Stór 10 tommu aðgerðarskjárinn er áberandi og mælaborðið klassískt og smart. Leðurinnréttingin er voldug og sætin eru sérlega þægileg. Aftursætisfarþegar geta einnig stjórnað hitanum þar og það er meira að segja hiti í aftursætunum. 

Tæknivæddur sjálfstýribúnaður

BMW 5 er vel búinn lúxus og þægindum en einnig tækninýjungum sem veita ökumanni og farþegum mikil þægindi. 5-línan nýja er búin flestum þeim tækninýjungum sem finna má í flaggskipi BMW í 7-línunni sem er stærri og mun dýrari bíll. Segja má að í 5-línunni séu lausnirnar í ódýrari útfærslu á sama tíma og bíllinn krefjist meiri þátttöku ökumanns í akstrinum en sjölínan.

Meðal tæknieiginleika fimmunnar er að bíllinn leggur sjálfvirkt í stæði. Að auki er nýja 5-línan búin ýmsum aðstoðarkerfum, svo sem sjálfvirkri hraða- og hemlastjórnun auk sjálfstýringar á hraðbrautum á allt að 209 km hraða á klukkustund. Við þessar aðstæður er bíllinn fullfær um að skipta um akrein og fara fram úr öðrum hægfara bílum í umferð- inni. BMW 5-línan kostar frá 7 milljónum en vel búinn með fjórhjóladrifi kostar bíllinn um og upp úr 9,5 milljónum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: BMW  • lúxus  • tækninýjungar  • sjálfvirkni