*

Veiði 1. ágúst 2013

Feikigóður gangur í laxveiðinni

Veiðin er 33 prósent betri en í meðalári. Orri Vigfússon segir langtímaáætlanir um verndun laxastofnsins vera að bera ávöxt.

Útlit er fyrir að laxveiðin á Íslandi í ár verði gríðarlega góð. Veiðin í sumar er þannig um þriðjungi betri en hún hefur verið að meðaltali á þessum tímapunkti síðustu átta ár. Í gær, 31. Júlí, var búið að veiða um 21.000 laxa í viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga en meðaltalið er um 15.500 laxar. Aðeins einu sinni á síðustu átta árum hefur veiðin verið betri í þeim 25 ám sem Landssambandið miðar við, en það var metárið 2010. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Orra Vigfússyni, formanni Verndarsjóðs villtra laxastofna. Segir hann ljóst að langtímaáætlanir um verndun laxastofnsins séu að bera ávöxt.

Laxagagöngur hafa verið sterkar víðast hvar og svo virðist sem laxinn hafi haft nóg æti í sjó því bæði smálax og stórlax er nánast undantekningalaust vel haldinn. Hin góða veiði, það sem af er sumri, kemur flestum veiðispekingum verulega á óvart, sérstaklega ljósi þess að veiðin í fyrra var afar slök. Hins vegar ber að hafa í huga að þó veiðin í fyrra hafi verið léleg hefur síðasti áratugur verið mjög gjöfull laxveiðimönnum hér á landi og mörg aflamet slegin. Miðað við það hvernig þetta veiðisumar er að þróast er ekki ólíklegt að veiðimet verði slegin í ám víða um land. Smálaxinn hefur gengið í árnar fyrr en venja er sem veit á gott því oftast er það ótvírætt tákn um að mikið af laxi verði í ánum.

Síðan veiðitímabilið hófst, þann 5. júní, hefur Norðurá verið aflahæst. Nú hafa veiðst 2.450 laxar í ánni og til þess að setja það í samhengi þá var búið að veiða ríflega 2.200 laxa á sama tíma árið 2008, en það ár fór veiðin yfir 3.300 laxa sem er met í Norðurá. Á heildina litið hefur laxveiðin gengið best á Vesturlandi í sumar. Það er ekki bara Norðurá því víða voru met-opnanir eins og til dæmis í Haffjarðará, Langá og Þverá/Kjarrá en sú síðastnefnda er önnur aflahæsta áin á landinu sem stendur með 2.107 laxa.

Veiðin á Norðvesturlandi hefur einnig gengið vel og sem dæmi höfðu í gær veiðst 1.929 laxar í Blöndu, en frá árinu 1974 hefur heildarveiðin í ánni aðeins fimm sinnum farið yfir 2.000 laxa. Þá virðist Laxá á Ásum vera að rétt úr kútnum eftir nokkur mögur ár. Þann 31. júlí var búið að veiða ríflega 585 laxa í ánni en þar er einungis veitt á tvær stangir. Miðað við veiði á stöng stendur Laxá á Ásum best allra áa með rúmlega 290 laxa á hvora stöng.

Á Norðausturlandi hefur veiðin hins vegar verið dræm. Veturinn var snjóþungur á þessu svæði og því var mikill snjór í fjöllum langt fram á sumar. Af þessum sökum voru ár mjög vatnsmiklar og kaldar framan af sumri, sem hefur líklega haft áhrif á laxagöngur. Þessar aðstæður gerðu að sjálfsögðu veiðimönnum líka erfitt fyrir. Þá hefur vakið athygli að töluvert hefur borið á mjög smáum laxi á Norðausturlandi. Hins vegar eru sterkar laxagöngur síðsumars algengar á þessu landssvæði og því alls ekki útilokað að veiðin muni taka kipp nú þegar líða fer á seinni hluta veiðitímabilsins.

Á Suðurlandi virðist veiðin í heildina vera heldur lakari en í fyrra. Laxagöngur í Þjórsá, þar sem sjálfbær netaveiði er stunduð, hafa hins vegar verið óvenju góðar. Þá lítur nú út fyrir að Ytri-Rangá og Eystri-Rangá séu að taka við sér en þær eru báðar komnar vel yfir þúsund laxa markið.

Orri segir að þrátt fyrir að sumarið byrji vel sé alltaf hægt að gera betur. Eigi að endurreisa Atlantshafslaxastofninn verði ýmislegt að breytast. Hann segir t.d. að laxeldi í sjó eigi ekki að viðgangast, heldur eigi slík starfsemi að fara fram í kerum uppi á landi. Einnig þurfi að huga vel að því hvað laxveiðiár beri margar stangir og að sumar ár ættu að hafa strangari reglur um að sleppa öllum eða stórum hluta af stangarveiddum laxi.

Stikkorð: Laxveiði  • Orri Vigfússon