*

Bílar 16. nóvember 2019

Fékk að hleypa villidýrinu út

Uppáhaldsbíllinn sem ég hef ekið er án efa Lexus RC F en það er eitthvert mesta villidýr sem ég hef kynnst.

Róbert Róbertsson

Hreggviður Steinar Magnússon, fyrrum landsliðsmaður í körfubolta, starfar sem sérfræðingur hjá Pipar\ TBWA og The Engine. Hann starfaði áður lengi í bílageiranum og er mikill bíladellumaður.

„Ég hef haft brennandi bíladellu frá því ég man eftir mér. Ætli ég hafi ekki verið þriggja ára, hugsanlega fjögurra ára, þegar við fjölskyldan vorum á keyrslu í Hvalfirðinum og lengst í fjarska voru bílljós og kallaði ég óspurður: ,,Þetta er Toyota Tercel,” segir Hreggviður. Faðir hans Magnús Hreggviðsson, fyrrum eigandi tímaritaútgáfunnar Fróða, ku hafa hrist hausinn, en stuttu seinna kom í ljós að í raun var þetta Toyota Tercel.

„Við pabbi deilum þessu áhugamáli um bíla og verður það bara verra með árunum, nú eða betra, hvernig litið sé á málin,” segir Hreggviður og brosir.

Honum hafa áskotnast allskonar bílar að eigin sögn. ,,Mercury Grand Marquis LS, RR Supercharged var eftirminnilegur, og auðvitað fjöldinn allan af praktískari kaupum eins og Toyota, VW og Skoda. Svo voru það skelfilegu kaupin sem gleymast seint. Ég keypti Alfa Romeo 156, og það geri ég aldrei aftur, en bíllinn reyndist ónýtur við kaupin. Reyndar sagði bílasalinn að vinur hans ætti bílinn. Ég fletti eigandanum upp og kom í ljós að það var einkahlutafélag og bílasalinn sjálfur var skráður fyrir félaginu. Heiðarlegt? Sá gaf stéttinni slæmt orð.

Í dag er ég þriggja barna faðir og eignaðist ég mitt þriðja barn nú í sumar. Bíladellan er því ansi aftarlega í forgangi núna. Í hlaðinu eru hvorki meira né minna en tveir skutbílar. Ég keyri á Skoda Suberb 4x4 en frúin er á VW Passat GTE, sem er reyndar mjög skemmtilegur bíll í GTE stillingunni. Þetta er praktík í fyrirrúmi. Mikið pláss og hagkvæmni í rekstri enda er Passatinn plugin- hybrid og keyrum við mikið á rafmagninu. Síðast var tankað fyrir um 3 mánuðum á þann bíl,” segir Hreggviður.

Audi S8 með „tómat, steiktum og remúlaði“

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið? „Uppáhaldsbíllinn sem ég hef ekið er án efa Lexus RC F en það er eitthvert mesta villidýr sem ég hef kynnst. 5 Lítra vélin með tæp 500 hestöfl, grind og fjöðrunarbúnað sem réð vandlega við ógnaraflið og skemmtilegan gírkassa. Ég keyrði bílinn á akstursbrautinni Circuito Ascari undir handleiðslu fagmanna og fékk virkilega að hleypa villidýrinu út.”

Hver er eftirminnilegasta bílferðin? ,,Ég á margar eftirminnilegar bílferðir en það er ein í sérstaklegu uppáhaldi. Við pabbi flugum út til Florida og sóttum þar gjörsamlega geggjaðan Audi S8 bíl með öllum hugsanlegum aukabúnaði. Við köllum það með „tómat, steiktum og remúlaði“ þegar þeir eru með öllum búnaði. Þann bíl þurftum við að keyra upp austurströndina, beint í flutningaskip. Þetta var svona amerískt ,,road trip.” Bíllinn var kraftmikill, stór og mikill, sætin góð og auðvitað var félagsskapurinn einstakur. Við nutum hverrar mínútu saman, hvort sem við töluðum saman eða hreinlega nutum í hljóði. Reyndar var mér minnisstætt að ég fann alltaf einhverjar útvarpsstöðvar sem spiluðu nýjasta nýtt í hip hop tónlist, eitthvað sem pabbi minn þolir ekki, en ekki ein kvörtun kom úr karlinum í margra klukkustunda ferð. Hrifningin á bílnum var þvílík, jú og kannski var hann ánægður með félagsskapinn líka.”

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.