*

Ferðalög 1. ágúst 2012

„Þetta er yndislegur félagsskapur“

Formaður Félags húsbílaeigenda segir nóg um að vera á hverjum áfangastað enda félagsmenn yndislegir.

Í kringum sjötíu húsbílar hófu Stóru ferð sína um Vestfirði á tjaldsvæðinu á Hólmavík um miðjan júlí. Formaðurinn Soffía Ólafsdóttir segir vinahópa verða til á ferðum félagsins.

Félag húsbílaeigenda var stofnað í ágúst árið 1983 og fagnar stórafmæli á næsta ári. Á hverju ári eru farnar sjö ferðir og ein stór á borð við þá á Vestfjörðunum. Í félaginu eru í kringum 670 númer og er eitt númer fyrir hvern bíl. Númerin hafa verið á þessu róli í gegnum tíðina og koma álíka margir í félagið og hverfa úr því. Oft eru tveir í bíl og stundum einn.

Soffía segir það dýrt sport að eiga húsbíl. Notaðir bílar kosta á bilinu 1,4 til 4 milljónir króna en nýir meðalbílar allt upp undir 14 milljónir. Þá kostar eldsneytið sitt. Þeir evrópsku sem keyra á dísilolíu eyða á bilinu 12 til 13 lítrum á hundraðið. Amerísku bílarnir eru enn dýrari í rekstri enda knúnir bensíni.

„Þetta er yndislegur félagsskapur," segir Soffía að lokum og bendir á að á hverjum áningastað sé nóg um að vera. „Það verða til vinahópar innan félagsins. Fólk hittist og sest fyrir framan bílana og prjónar og heklar. Þegar einn félagsmaður dregur fram harmonikku eða gítar hópast fólkið í kring og fer að syngja með."