*

Sport & peningar 31. júlí 2012

Félag Ólafs, Arnórs og Snorra Steins gjaldþrota

AGK var tekið til gjaldþrotaskipta í dag en leikmenn fengu þó laun sín greidd.

Kaupmannahafnarliðið AG København er gjaldþrota. Þetta kemur fram í frétt Extrabladet.dk en með félaginu spiluðu meðal annars íslensku handknattleiksmennirnir Ólafur Stefánsson, Arnór Atlason, Snorri Steinn Guðjónsson og Guðjón Valur Sigurðsson á síðustu leiktíð. Guðjón hefur þegar samið við Kiel í Þýskalandi eins og greint var frá í febrúar á þessu ári.

Samkvæmt frétt Extrabladet.dk hætti framkvæmdastjóri félagsins, Søren Colding í gær og var óvíst hvort að leikmenn liðsins myndu fá laun sín greidd í dag. En samkvæmt fréttinni fengu leikmenn þó greitt inn á reikninga sína í dag.

Auðmaðurinn Jesper Nielsen stóð fyrir uppbyggingu AGK undanfarin tvö ár sem félagið var til og fékk til sín marga af bestu handknattleiksmönnum Evrópu. Liðið komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu fyrr á þessu ári.

Stikkorð: Handbolti  • Ólafur Stefánsson  • AGK