*

Hitt og þetta 18. nóvember 2013

Félagsfærni lykillinn að velgengni í starfi

Menntun og reynsla eru ekki endilega nóg þegar fólk vill skara fram úr í starfi.

Þó að manneskja uppfylli kröfur sem snúa að tilteknu starfi þá er það oft  ekki nóg vilji hún skara framúr. Reynsla og menntun eru vissulega nauðsynlegir þættir en atriði eins og félagsfærni spilar alltaf stórt hlutverk og getur skipt sköpum.

Oft er félagsfærni ruglað saman við það að vera hress og skemmtilegur en staðreyndin er sú að á bak við félagsfærni er oft á tíðum flókin og nauðsynleg tækni sem kemur sér sérstaklega vel á vinnustaðnum.  

Í áhugaverðri grein á Forbes.com eru talin upp 20 atriði sem þykja mikilvæg í félagsfærni. Skoðum þau helstu:

Að geta sett sig í spor annarra. Þetta er mjög vanmetið atriði í viðskiptum þar sem virðing fyrir skoðunum annarra, þó fólk sé kannski ósammála, getur skipt sköpum í framgangi fyrirtækisins.

Hæfileiki til að tjá sig vel. Þetta á bæði við í töluðu og rituðu máli. Þegar starfsmaður vill koma hugmyndum sínum á framfæri er nauðsynlegt að geta komið þeim skýrt frá sér. 

Þolinmæði. Þegar fólk heldur ró sinni nær það að hugsa skýrar. Einnig taka stjórnendur sérstaklega eftir yfirvegun og þolinmæði starfsfólks og meta það mikils. Sumsé: Það er ekki töff að bilast úr stressi bara til að sýnast vera mikilvægur.